26 Nov 2005
November 26, 2005

Björgunarleikarnir 2005

Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju ég gekk til liðs við björgunarsveitir. Sem barn prófaði ég auðvitað knattspyrnuna, komst einhvern veginn aldrei í þennan keppnisham sem maður þarf víst að vera í, c-liðið var því alltaf mitt lið. Eftir 2 sumur án stærri sigra lagði ég skóna á hilluna enda voru þeir orðnir allt of litlir.
Einhvern veginn smellpassaði ég strax inn í félagsskap björgunarsveitanna, engin keppni, allir stefndu bara að svipuðum markmiðum: að verða bærilegir björgunarsveitamenn. En er keppni ekki bara af hinu góða? Hún jú reyndar skilur alltaf þá að sem leggja sig fram frá þeim sem leggja sig síður fram.
Vorið 2001 var efnt til keppni milli björgunarsveita, svokallaðra björgunarleika. Keppt var í hinum ýmsu þáttum björgunarsveitastarfsins s.s. rústabjörgun, fjallabjörgun og skyndihjálp svo eitthvað sé nefnt. Meðlimir Björgunarfélags Akraness skráðu sig að sjálfsögðu og mættu galvaskir til leiks. 5. sætið varð okkar, sem var ágætt miðað við þann fjölda sveita sem tók þátt. Einsettum við okkur það markmið að verða í einu af þremur topp sætunum árið 2003 þegar næstu leikar yrðu haldnir.
Það kom að árinu 2003 og sett var saman lið innan BA, lið sem hafði mjög dreifða þekkingu og víðtæka reynslu. Keppnin var haldin í lok maí og sökum prófa í framhaldsskólum gafst lítill tími til undirbúnings.
Við mættum samt til keppninnar af miklu afli og nutum þess að leysa þær þrautir sem við var að fást. Um kvöldið var svo boðið til kvöldverðar og dansleiks. Rétt fyrir miðnætti voru úrslitin gerð kunn og Björgunarfélag Akraness hafði hneppt annað sætið. Í bland við sigurvímuna var smá biturleiki yfir því að hafa ekki hirt fyrsta sætið. En við vorum ánægðir með okkar hlut, ánægðir yfir því að vera næst besta björgunarsveit á Íslandi.
Svo liðu 2 ár og leið að þriðju björgunarleikunum. Að sjálfsögðu skráðum við okkur til leiks, og ekki var ætlast til neins annars en að fá 1. sætið.
Sumir voru meira segja svo stórorðir að heita því að ef við næðum ekki 1. sætinu, færi allt liðið í g-streng til sunds í sundlaug Akureyrar en þar átti keppnin einmitt að fara fram. Tíminn leið og keppnin dagsett 21. maí.
Dagurinn hófst snemma með þraut sem snerist um rústabjörgun, svo kom fjallabjörgun, skyndihjálp, sjóbjörgun, tímaþraut þar sem við veltum rúllubagga yfir ýmsar hindranir o.fl. Dagurinn endaði svo á staðbundinni keppni milla allra sveitanna í böruhlaupi. Þar var hlaupið með heybagga í börum u.þ.b. 1.5 km leið fram hjá ýmsum hindrunum. Skagamenn komu þar fyrstir í mark við mikinn fögnuð áhorfenda. Þá kviknaði hjá okkur sú von að við yrðum kannski í einu að efstu sætunum.
Um kvöldið var svo öllum safnað saman í KA höllinni (íþróttahús á Akureyri) og úrslitin tilkynnt. Ég gleymi þessu augnabliki sennilega seint en það eina sem kom upp í huga mér rétt áður en fyrsta sætið var lesið upp var, hvort að ég þyrfti daginn eftir að fara og versla mér g-streng og fara svo í sund í honum… „og í fyrsta sæti í björgunarleikunum árið 2005 er….Björgunarfélag Akraness“ hljómaði rödd upp á sviði. Ég leit strax framan í Ásgeir formann og Hannes fyrrverandi formann, sá að þeir brostu hringinn. Loksins, sigurvíman! Við vorum bestir á landinu. Verðlaunin voru ekki slæm en sigurinn sjálfur var sætastur, loksins var hann okkar.

Gunnar Agnar Vilhjálmsson

Deila á Facebook