26 Nov 2000
November 26, 2000

Innan um jakuxana í Nepal

Aðfaranótt 29 október árið 2000, lá ég andvaka upp í rúminu mínu, ég gat ekki lokað augunum út af spenningi. Ég beið og beið og loks kl 0300 eftir miðnætti hringdi vekjaraklukkan. Ég spratt á fætur, klæddi mig í buxur, flíspeysu og tók bakpokann minn. Ég læddist út úr húsinu og rölti niðrí björgunarfélagshús, það var loksins komið að því, við vorum að fara til Nepal.

Undirbúningurinn hafði tekið marga mánuði og stressið undanfarna daga við lokaundirbúninginn var allmikið. Það þarf að huga að mörgu þegar 8 manna hópur frá Íslandi tekur sig saman og fer til Nepal til að klifra fjöll. 4 úr þessum hóp starfa saman í sérstökum undanfarahóp í Björgunarfélagi Akraness. Við hittumst niðrí Jónsbúð upp úr kl 03:00, allt var klárt þar sem við eyddum deginum á undan í að pakka niður. Þá var brunað upp á völl þar sem við hittum restina af strákunum.
Fyrst flugum við til Köben og þaðan til London, með um 400kg af farangri stóðum við brosandi fyrir framan stelpuna á Heathrow sem “gleymdi” að rukka okkur fyrir yfirvigtina. Þaðan flugum við í um 9 klst til Qatar með tvöfaldri viðkomu á einhverri eyju í Persaflóanum út af þoku í Qatar. Frá Qatar flugum við svo beint til Katmandu höfuðborgar Nepal.
Á flugvellinum í Katmandu beið okkar maður að nafni Prim sem var svo aðal gædinn okkar, þar voru líka krakkar í tugatali að betla og gátum við því losað okkur við íslensku skiptimyntina okkar.
Næstu 3 daga notuðum við til að skoða Katmandu, við skoðuðum nokkur búddahof, Durbar square sem er stórt markaðstorg, Tamel sem er aðal verslunar hverfið og New Road sem lítur út fyrir að vera mjög gamall. Kvöldið áður en að við fórum upp í fjöllin fórum við svo til klæðskera, létum hann taka málin á okkur og pöntuðum okkur allir Kasmír ullarjakkaföt og silkiskyrtur… flottheitin.
Morguninn eftir flugum við til Lukla sem er bær í 2800m hæð í Himalayafjöllunum. Við höfðum heyrt margar sögur af skelfilegu aðflugi þar sem lent yrði upp í móti og flugbrautin væri svo stutt að erfitt væri að lenda flugmódeli þarna og vélin tæki beygju á punktinum þar sem brautin endaði við klettavegg og þegar vélin tæki á loft myndi hún fljúga fram af fjallsbrúninni og klifraði svo…………………og þetta var allt satt!!
Við sátum í vélinni með smá hnút í maganum þegar flugmennirnir komu um borð virtust traustir náungar. Annar hreyfillinn fór í gang en hinn ekki, okkur var sagt að yfirgefa vélina úbbs!!
Maður sem var vægast sagt tortryggnilegur fór nú að gramsa í ýmsu drasli og virtist hann vera að reyna ná einhverju lausu með einhverjum verkfærum sem við höfðum aldrei séð. Hann reif eitthvað laust undan vélarhlífinni, sýndi okkur það og brosti fallegu tannlausu brosi. Hvað þetta var hef ég ekki hugmynd um en við máttum fara um borð og þá tókum við eftir því að það var hálf lint í einu dekkinu en það var allt í lagi þar sem við ætluðum ekki að keyra til Lukla, okkur var afhentur baðmull til að troða í eyrun okkar og nutum við útsýnisins.
Loksins Himalayafjallgarðurinn eins og hann lagði sig, mér hafði dreymt um að koma hingað frá því að ég var óviti og nú var ég hér með góðan vinahóp með mér.
Nú hittum við hina gædana okkar sem voru Mingma, Passang og Ang Pemba Sherpa tvöfaldur Everestfari. Við vorum eins og smákrakkar undir öllum fjallarisunum og allir virtust vera að forgangsraða þeim fjöllum sem þeir ætluðu að klifra í komandi framtíð. Við tókum stefnuna í tind sem ber nafnið Island Peak eða Imja Tse á máli sherpana. Þessi tindur er 6189 m.y.s og telst vera nokkuð góð byrjun á háfjallamennsku. Við gengum á milli þorpanna og hækkuðum okkur upp um c.a. 300 metra á dag. Gistum inn í þorpunum í tjöldum og blönduðum geði við innfædda. Allstaðar þar sem við komum voru sölumenn sem seldu minjagripi og alls kyns dót, og vorum við í einhverskonar leik þar sem keppt var um hver gat prúttað mest og var það alltaf reglan mín að borga alltaf 10% af uppsettu verði.
Einn daginn þar sem ég var á labbi hnippti Ang Pemba í mig og benti á fjalltind í fjarska, ég vissi um leið hvaða fjall var þarna. Þetta var Mount Everest og var ég að sjá það í fyrsta sinn, ég stoppaði í nokkrar mínútur og starði agndofa á tindinn. Snjóskúfur lagði frá honum og hugsaði ég til þess að þessi litli maður sem stóð mér við hlið hafi 4 sinnum verið í Suður skarðinu og tvisvar staðið á tindinum.
Fyrsti aðlögunartindurinn okkar var nibba í um 5080 metra hæð á fjallinu Pokalde. Sex af okkur lögðu af stað og var hæðin nokkuð farin að segja til sín þegar hæðarmælarnir sýndu 4807 vissum við að við vorum hærri en hæsta fjall vestur Evrópu Mont Blanc því vildum við óðir halda áfram. Tveir urðu eftir þar en þeir þjáðust af höfuðverk. Okkur hinum leið vel og því héldum við áfram. Tindinum náðum við, og ég og Siggi Kári skildum eftir minjagrið á toppnum.
Á milli tókum við hvíldardaga, þá notuðum við til að liggja í sólinni og spila Lúdó sem reyndist vera eini hluturinn sem reyndi að storka vinskapnum en það leystist. Næsti aðlögunartindur var Chukung peak í 5845 metra hæð. Þangað komust allir nema einn sem var slappur. Þaðan sáum við fjallið Pumo ri það er fjall sem hefur að geyma líkamsleifar 3 íslenskra fjallamanna sem fórust þar.
Næstu daga blasti fjallið okkar við innan um nokkra 8000 metra risa ég var stöðugt að horfa þarna upp og vonaði að ég yrði heilsuhraustur þegar haldið yrði á það.
Grunnbúðir voru í rúmlega 5000 metra hæð og vöknuðum við um kl 00:00 til að borða og hafa okkur til. Ég hafði krækt mér í einhverja ælupest og gat ekki haldið neinu niðri, þetta var næstum það versta sem gat komið fyrir mig. Hinir strákarnir virtust hressir. Við héldum af stað og ég reyndi að halda niðri leppin orkudrykk.
Veðrið þessa nótt var með ólíkindum gott og gekk klifrið vel. Við náðum inn á jökul um 09:00 um morguninn og vorum undir fjallshryggnum um kl 13:00. Þar þurftum við að bíða þar sem við þurftum að klifra um 150 metra fjallshlíð og annar hópur var að koma niður. Loks komumst við að og héldum af stað. Við vorum nú í um 5900 metra hæð og leið okkur eins þurra andrúmsloftið væri að skera lungnaberkjurnar.
Hvert skref þurfti að úthugsa og dró ég andann þrisvar eftir hver skref. Þegar ég kom upp á hrygginn hélt ég áfram áleiðis eftir honum og náði tindinum um kl 15:00.
Það andartak er erfitt að koma orðum að hér. Bæna flögg voru á tindinum og útsýnið að með því allra besta sem Himalya býður upp á. Ég beið ásamt þremur félögum mínum í um klukkutíma eftir hinum á toppnum og náði ég að sofna aðeins í sólinni. Svo komu þeir og toppamynd var tekin með tilheyrandi fánum og fagnaðarlátum.
Niðurferðin gekk svona misjafnlega hjá tveimur okkar vegna súrefnisskorts og þreytu en á þessari leið hafði maður látist nokkrum dögum áður að völdum þess að hann hrapaði og lenti á ísexinni sinni og í misjöfnu ástandi sofnuðu menn eftir 24 klst erfiðasta sólarhring í okkar lífi.
Tveim dögum seinna ákváðum við að segja þetta gott af Hymalaya þar sem við vorum ánægðir með árangur okkar og farið var að styttast í heimferð okkar og okkur langaði til að skoða frumskóginn í Nepal. Það fór því svo að við flugum niður úr fjöllunum og héldum niðrí frumskóginn í leit að villtum dýrum, helst tígrisdýrum.
Við byrjuðum á að eyða heilum degi í að riverrafta. Það var upplifun að geta verið einungis í stuttbuxum, áin næstum því heit og flúðirnar voru alla vegna í mínum augum einar þær hræðilegust sem ég hafði séð.
Svo eyddum við þremur dögum í Chitwa sem er þjóðgarður. Þar gátum við setið fíla, skoðað krókódíla í nærmynd, séð villta nashyrninga, loksins komist í heitar sturtur og loksins, loksins setið á postulíni umm!!!
Að fara í þjóðgarðinn var ágætis hvíld eftir að hafa verið í fjöllunum og þó við sáum engin tígrisdýr vissum við af þeim, enda sögðu innfæddir við okkur þegar við spurðum þá hvort þau réðust á fólk að þau borðuðu aðeins á ferðamenn.
Eftir frumskógarævintýrið eyddum við 3 dögum í Katmandu, kunnum við vel við okkur, þar sem þetta lítur út fyrir að vera stór ruslahaugur þá er þetta heimsklassaborg. Við sóttum jakkafötin okkar og létu þrír tattóvera sig.
Kvöldið áður en við flugum heim buðum við gædunum okkar út að borða á fínan veitingarstað og áttum ánægjulega kvöldstund með þeim, á flugvellinum kvöddum við svo Nepölsku vini okkar og vorum við sammála um að heiðarlegra, og duglegra fólk væri erfitt að finna.
Síðast stund okkar í Nepal var svo þegar karl á flugvellinum rukkaði okkur um 190 þús. kr í yfir vigt. Með rúmlega hálft tonn af farangri horfðum við á hvorn annan með stórt spurningarmerki í framan. Allir peningalausir, VISA reddaði.
Það voru svo 8 náungar sem komu niður rúllustigann á keflavíkurflugvelli 30. nóvember allir klæddir í Kasmír ullarjakkaföt….. hrikalega svalir…

Gunnar Agnar Vilhjálmsson

Deila á Facebook