Það var mikill ánægjudagur í haust þegar Björgunarfélagið vígði húsnæði sitt og nýjan björgunarbát. Báturinn ber nafnið hennar Margrétar Guðbrandsdóttur sem starfaði með Slysavarnadeild kvenna hér á Akranesi áratugum saman. En hún lést ásamt eiginmanni sínum Guðmundi Sveinssyni í Akraneshöfn í mars 2004.

Margrét sat í stjórn deildarinnar, um tíma sem formaður. Hún var mjög dugleg í félagsstarfinu, var meðal annars í félagsvistarnefnd til fjölda ára og hafði gaman af.
Fyrir um það bil 15 árum fengum við það verkefni að fara yfir öryggisbúnað í og við höfnina. Margrét kom með mér í það verkefni sem við unnum með gátlistum frá Slysavarnafélaginu. Þar skoðuðum við bryggjustiga, kantana á bryggjunni, merkingar og margt fleira sem við fórum yfir. Ásandið var nokkuð gott. Það var gott að hafa Margéti með í þessu verkefni því hún þekkti höfnina nokkuð vel og hafði brennandi áhuga á slysavörnum. Hún var slysavarnakona af lífi og sál.
Slysavarnadeildin færði Björgunarfélaginu peningagjöf að upphæð kr. 500.000 þegar báturinn var vígður og skiptist hún á milli bátaflokks og köfunarhóps.

Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér ótrúlegt að hugsa til þess að þau hjónin hafi farist í höfninni. Það er líka umhugsunarefni fyrir okkur hin að slysin gera ekki boð á undan sér. Við þurfum að vera vakandi fyrir hættum í okkar nánasta umhverfi.

Bærinn okkar hefur byggst hratt upp að undanförnu og því fylgir mikil umferð stórvirkra vinnuvéla og tækja. Djúpir húsgrunnar eru líka hættulegir þó þeir séu oftast girtir af. Það þarf að benda börnum á að leika sér ekki á svæðum þar sem verið er að byggja.

Í ársbyrjun 2005 styrkti deildin heimsókn Brúðuleikhúss í leikskólana hér í bænum. Sýningin fjallaði um strákinn Núma og hvernig hann lenti í hinum ýmsu óhöppum og hvað ber að gera til að varast þau. Börnin höfðu bæði gagn og gaman af þessari sýningu.

Í maí stóðum við fyrir hjóladeginum ásamt Rauða krossdeildinni, lögreglunni og grunnskólunum. Einarsbúð gaf svaladrykk handa þátttakendum. Hjóladagurinn er orðinn árviss. Þar mæta börnin á hjólum eða línuskautum og leysa ýmsar þrautir, hjólin skoðuð og hjálmarnir stilltir. Í vor fengum við trúð á línuskautum til að skemmta og leika listir, úr því varð mikið fjör.

Aðal fjáraflanir deildarinnar eru kaffisala á sjómannadaginn, félagsvist spiluð yfir vetrarmánuðina, og núna síðustu ár höfum við útbúið leiðisgreinar og krossa sem hafa verið seldir samhliða jólatréssölunni hjá Björgunarfélaginu.

Við þökkum þökkum öllum þeim sem stutt hafa við bakið á okkur í gegnum árin.
Megið þið öll eiga gleðileg og slysalaus jól og áramót.

Anna Kristjánsdóttir
Formaður Slysavarnadeildar kvenna, Akranesi

Deila á Facebook