23 Jan 2014
January 23, 2014

Lærleggsbrot í Botnssúlum

Í byrjun mars á síðasta ári lenti félagi okkar í því að slasast í gönguferð um hlíðar Botnssnúlna. Hann var svo vænn að leyfa okkur að birta hans hlið á því hvað gerðist og hvernig hanns upplifun er af því að vera sá slasaði sem þurfti aðstoðar við. Ljóst er að þjálfun hanns og reynsla þó ekki gamall sé, hjálpaði honum í gegnum þessa lífsreynslu og sýnir þetta að góð þjálfun og þekking skiptir miklu máli þegar ferðast er um fjalllendi Íslands.  Hér  á eftir kemur frásögn Daniels.

Daniel Magnússon

Daniel Magnússon

Ég heiti Daníel Magnússon, tvítugur vélvirki af skaganum. Ég er starfandi félagi í Björgunarfélagi Akraness og hef brennandi áhuga á útivist og náttúrutengdu sporti. Ég lentí í atviki sem mun marka spor í líf mitt það sem eftir er og langar mér örlítið að segja frá því hvað í raun gerðist.

Föstudaginn 8.mars. Þetta er dagur sem gleymist seint, eflaust rýrna minningarnar en þær munu alltaf eiga sinn sess. Sólin skein og það var farið að glitta í grænu liti sumarsins, þetta var svo sannarlega fallegur dagur, það viðraði vel til fjallgöngu.

Ég var risinn úr rekkju þegar klukkan fór að nálgast tíu og stökk rakleiðis fram í eldhús að slökkva í söngnum sem var á ferli í maganum. Á meðan á máltíðinni stóð sendi ég skilaboð á félaga minn og spurði hann hvort hann ætlaði með, hvort heilsan væri byði upp á það þar sem árshátíð skólans var daginn áður. Ég fékk á móti að hann hugðist halda sig heima enda vægt timbraður og var ég ekkert að kippa mér upp við það, hafði farið oft einn á fjöll áður.

Eftir staðgóða máltíð var rokið út í bíl og haldið upp í hús þar sem ég fór í að taka til búnað og föt sem þurfti að hafa meðferðis, tók einungis lágmarksbúnað en hugsunin var að athuga hvort snjóflóðahætta væri til staðar inn í Botnsúlum. Það hafði að vísu lítið snjóað að undanförnu en þá yrði þetta bara heilsubótar ganga, gat varla sakað. GPS tæki, þriggja laga fatnaður, buff, lúffur með fóðruðum vettlingum, hlýir sokkar, Húfa með “barnateygju” undir hökuna,  einn líter af vatni, súkkulaði, hnetur, rúsínur, göngustafir, skrifblokk, skriffæri og upp á gannið tók ég snjóflóðastöng og skóflu ef ég skyldi rekast á eitthvað sem væri verðugt að skoða. Ég loks reimaði á mig Scarpa gönguskóna skrifaði á töfluna inn í skáparými ,,Er farinn upp í ——— að skoða aðstæður, brottför kl: 11:00 -Daníel M” Vildi ekki gefa upp staðsetningu ef nýliðarnir kæmu inn í hús, því þetta var könnunarleiðangur þar sem verið var að senda þau í prófið sitt, göngu um Botnsúlur, seinna um daginn. Það vissu þó allir aðrið hvar ég var, líka pabbi.
Loks hélt ég út í bíl og ók af stað í en eitt smáævintýrið.

Í upphafi Göngu

Í upphafi Göngu

Aksturinn var hefðbundinn, áleiðis út úr bænum stillti ég á CD og var MIKA diskurinn í, hef alltaf haft lúmskt dálæti af honum þótt ég dreifi því ekki. Hausinn tók kippi í takt við lögin og var lúmskur spenningur að komast en á ný út í fegurð Íslands og vera einn með sjálfum mér, þannig líður mér oftast best. Hvalstöðin nálgaðist er ég ók niður brekkuna sem leiddi mig nær og nær botni, en þá kom ég auga á svartari bíl en svart er, þetta var greinilega sérsveitin á æfingu. Ég hugsaði með sjálfum mér ,, töff, þetta er eitthvað sem ég væri til í einn daginn” og ók áfram. Loks kom beygjan sem tók mig út á mölina og framhjá ónýtu sjoppunni sem stendur niðurnelgd  og ljót rétt hjá, minnir mig alltaf á bókina 79 af stöðinni. Aksturinn hafðist á endanum og kom ég loks að litla sæta bílaplaninu sem stendur hrukkótt af möl innst í Botnsdal.

Ég steig út úr bílnum, fullklæddur nema Cintamani jakkinn minn lá í aftursætinu. Afturhurðin opnaðist og var Kári duglegur að streitast á móti við að loka hurðinni, ég hafði þó sigurinn og náði dótinu mínu út.

Ég byrjaði á því að skella jakkanum yfir mig og renna honum öllum, skellti teygjunni á húfunni upp í kjálka og smellti bakpokanum á bakið. Göngustafirnir drógust út mjúklega og smullu loks í 125 cm, passlegir fyrir lítinn mann eins og mig. Ég var loksins klár, Botnsúlurnar öskruðu á mig, ég varð skotinn í þeim í en eitt skiptið.

Ískur heyrðist, hliðið opnaðist og ég staulaðist í gegn. Ég skellti því á eftir mér og hélt af stað. Æsingurinn braust örlítið út og hljóp ég áleiðis þar til ég komst að auða bænum sem stendur á vinstri hönd. Ég staldraði ögn við og virti hann fyrir mér, hugsaði með mér hversu flott væri að eiga hann fyrir sumarhús. Af stað ég þaut stuttu síðar og hélt áleiðis yfir “akurinn” eins og ég kalla hann og tók hægri krókinn í átt að ánni. Renndi mér mjúklega á skósólunum niður brekkuna enda voru nokkrar snjóflygsur í henni sem hjálpuðu mér. Ryðgaða, götótta stálbrúin gapti upp í trýnið á mér og hélt ég út á hana til að komast yfir. Það hafðist og var þá komið að slóðanum sem lá meðfram skóglendinu og áleiðis upp á “heiðina” sem var fyrir ofan, á milli Botns og Brynjudals.

Gangan var nokkuð létt, jarðvegurinn örlítið frosinn en ekkert sem skaðaði neinn, snjóskaflar lágu hér og þar enda bara litlir tittir. Ég gerði það þó mér að gamni að taka litla sveiga á stígnum og prófa snjóinn og var greinilegt að þetta var vorsnjór, blautkenndur og kristallaður, hann var eins og marghitaður matur, ógeðslegur. Ég spáði ekki meir í það og komst upp og þá sló mig örlítill vindur í andlitið, eitthvað sem við Íslendingar köllum eflaust bara golu og var ég því ekkert að stressa mig. Hafði þó í huga að hryggurinn frægi          magnar upp vindinn, eða öllu heldur magnast vindurinn upp þegar á hann er komið og reyndist það rétt síðar meir.

Áin litla var þrædd áleiðis og voru snjóflygsur hér og þar en hún var rétt það frosin til að vera traust undir lítinn 77kg mann eins og mig, þó farin að hola ísinn. Ég kom að vörðunni sem liggur undir hryggnum Botnsúlu meginn og settist þar fyrst niður til að næra mig, þá var liðinn tæpur klukkutími frá brottför úr Botni. Ég reif upp salthnetur, rúsínur og eitthvað gúmmelaði og skellti því í grímuna ásamt hálfum lítra af íslensku kranavatni. Staldraði ekki lengið við enda æstur í að halda áfram og kanna meira. Það var þá lítið annað í stöðunni en að skella aftur á sig fingurspjörunum og láta vaða á hrygginn.

Horft upp í Botssúlurnar

Horft upp í Botssúlurnar Ljósm. Freyr I. Björnsson

Þéttingsföst og jöfn skrefin skiluðu mér á góðum hraða upp brekkuna en ég skáskaut hana til þessa að græða hæð og fjarlægð upp hryggin, bara til að breyta til þar sem hann var nánast auður af snjó. Loks hafðist það og upp á hann var ég kominn, þá jókst vindgusan töluvert en þó ekkert sem ég hafði áhyggjur af, hún var rosalega sveiflukennd og voru þetta klassískir sviftivindar sem ég telfdi við þarna. Ég staldraði við í 10 sekúndur og virti fyrir mér hvaða leið skyldi velja. Undir hamra inn í dal? Áfram upp hrygginn og skoða ofan frá? Eða ganga fyrir ofan hamrana? Það var svo margt í boði en ég valdi bara rólega og örugga leið, að halda áfram upp hryggjalínuna sem teygði sig í átt að súlunni, sem var greinilega frosin í hel.

Áfram skröllti hann þó… áleiðis upp hrygginn og þegar lengra var komið mætti mér snjólögð brekka sem var töluvert breið. Ég studdi mig við göngustafina og skellti hægri fætinum í hana til að athuga hvernig snjórinn væri, hvort hann væri mjúkur og gönguhæfur eða frosinn þar sem hallinn á brekkunni var sakleysislegur.

Fóturinn kom aftur í fangið á mér í sömu svipan og var greinilegt að þessi brekka var “NO GO” eins og sagt er. Fór ég þá að hugsa mig um og sá ég að ég gat haldið hæð og tekið stefnuna inn í skálina sem lá undir hryggnum, það leit autt og vel út. Heilastjórnin samþykkti ákvörðunina einróma og var þá byrjað að hliðra inn í skálina.

Mest allt var þetta nánast flatt, kannski skíttar 10°-15°á köflum, varla hættulegt. Ég tók eftir mörgum litlum sprænum sem runnu niður brekkurnar í skálinni og áttu þær eflaust uppruna sinn úr bráðnun hengja og annara snjóskafla sem hafa verið og voru uppfrá, þær voru að vísu allar gegn freðnar. Þær voru í mesta falli 30cm á breidd þannig að eitt gott skref skilaði mér yfir þær.

B

Sprænan örlagaríka. Hörft er uppeftir “sprænunni” frá þeim stað sem Daniel stoppaði Ljósm. Freyr I. Björnsson

Ég staðnæmdist snögglega og fyrir augum mér blasti ríflega þriggja metra breið “spræna”, örlagasprænan. Ég horfði á hana og hugsaði, þetta fer ég ekki yfir, enda ekki með brodda né exi í för því var það einfaldlega of áhættusamt. Ég leit upp til vinstri og sá hvernig sprænan þræddist upp á hrygginn sem leit auður út og ákvað ég þá að fylgja henni upp á hrygginn.  Markmiðið á þessum tímapunkti var að komast upp á hrygginn, virða fyrir mér góðæris útsýnið og halda svo heim.

Í sömu svipan heyrðist  hávær skilaboðstónn í símanum og voru það upplýsingar um að skilaboð hefðu ekki skilað sér til pabba. Mér var boðið í mat um hálf sjö og var ég einungis að svara því, en ljóst var að sambandið var ekkert á þessum punkti en í sakleysi mínu ýtti ég á “retry” til þess að prófa aftur, það tókst þegar ég gekk áleiðis upp án minnar vitundar.

Brekkan tók að vinda upp á sig og var hallinn orðinn ágætur en ekkert gífurlegur þegar nálgast fór efsta hlutann á hryggnum. Eitthverja hluta vegna hélt ég mig alltaf óskynsamlega nálægt frosna læknum í von um að það opnaðist leið yfir hann en það varð ekki raunin, hann var tregur.

Það var ekki langt í toppinn þegar eitthvað fór úrskeiðis, ég stiklaði á auðum steinum sem lágu upp brekkuna þegar mér misfórst skref og hægri fætinum var kippt undan mér á svipstundu.

Ég féll samstundis niður.

Í sömu andrá lenti  ég á rassinum og náði snögglega að snúa mér við þannig að ég sæti líkt og barn í rennibraut, nema þessi var löng og ófríð. Fyrstu viðbrögð mín voru að reyna að ná handfestu utan um stein sem stóð upp úr ísnum mér á hægri hönd og hef ég eflaust tekið mitt fastasta faðmlag ævinnar en það dugði ekki til, hann tók ekki á móti mér. Strax eftir að hann neitaði mér greip ég í vinstri göngustafinn, en þeir voru báðir ólaðir utan um úlnliðina og stakk ég honum af öllu afli ofan í ísinn mér á hægri hönd. Aflið sem ég notaði er erfitt að rifja upp en þetta var eitthvað sem ég mun eflaust aldrei geta leikið eftir. Klakinn þyrlaðist upp frá stafnum og skildi hann eftir sig djúpt spor en svo brást hann mér örstuttu síðar, hann bognaði og gaf upp öndina.

Við mér blöstu tveir fætur, prýddir rauðum og bláum litum, merktir Daníel M – Björgunarfélag Akraness. Handann þeirra var hvít og brött rennibrautt sem virtist endalaus og á hliðum hennar var hún fallega bólstruð með íslensku fjallabergi, sérstaklega skorðað af og brýnt í tilefni dagsins.

Á þessari stundu, þessum sekúndubrotum, þutu tuttugu ár í gegnum hugann. Ég man hreinlega ekki hvað ég hugsaði þar gekk svo hratt í gegn og á sama tíma hugsaði ég:

,,Jæja Daníel, þá er komið að því, við erum búnir með okkar tímar hér”

Eftir á að hyggja veit ég ekki hvort ég var búinn að sætta mig við dauðann á þessari stundu eða hvort ég hreinlega hafði ekki tíma til að hugsa út í það, en þarna stóð hann og hló framan í mig eins og við endann á þessari rennibraut biði hann eftir að ég staðnæmdist. Þá myndi hann rífa mig upp og taka mig burt.

Þá hófst leikurinn.

Ég tók að kúveltast í hringi og man einungis eftir þeirri mynd þegar að ég lá með bakið í brekkuna, hausinn snéri upp hana og fæturnir snertu hana fyrir ofan haus líkt og ég væri að fara í afturábak kollhnís. Höggin dundu á mér líkt og væri verið að taka mig í gegn og var enginn möguleiki á að stöðva mig á nokkurn hátt, ég var bara lítill strákur, bókstaflega óstöðvandi.

Tilfinningin var ógeðfelld vægast sagt. Ótti, kvíði, hræðsla og öll súpan sem hægt er að framkalla kom á einu silfurfati upp í hugann. Augun sáu bara svart meðan ég rúllaði niður eins og bingókúla sem beið eftir því að komast út.

D

Horft niður eftir læknum frá þeim stað sem Daniel stoppaði.
Ljósm. Freyr I. Björnsson

Það merkilega er að ósjálfráðu viðbrögðin voru þau að gera kryppu á bakið, teygja hökuna ofan í bringu og umluktu hendurnar höfuðið vandlega, mikið var ég feginn að vera með úrið á mér. Eftir dálitla stund byrjaði ég að skoppa meira en var í fyrstu og endaði það með gífurlegur höggi, eitthvað sem var ekki ofan á bætandi á þá skelfingu sem fyrir var. Strax eftir þetta högg staðnæmdist ég í snjóskafli sem var í brekkunni, hann teygði anga sína kannski nokkra metra á lengd hennar, en hann var öryggisnetið sem bjargaði mér.

Ég var á lífi…

Köld tilfinning streymdi niður bakið og undir rassinn eins og skvett væri köldu vatni aftan á mig, þessu gleymi ég seint. Andadrátturinn var í hámarki og var mín fyrsta hugsun að róa mig niður. Ég reif upp talandann og byrjaði að tala við sjálfan mig líkt og við værum tveir á staðnum. Þetta er aðferð sem hefur komið mér í gegnum erfiða tíma á þessum 20 árum og gerir en.

Róa sig… Róa sig….

Á meðan það ferli var í gangi fór ósjálfrátt í gang snögg líkamskoðun sem hefur eflaust tekið léttar tíu eða tuttugu sekúndur.

Hryggur… virðist í lagi.
Höfuð… virðist í lagi.
Handleggir… virðast í lagi, eymslí í hægri olnboga og vinstri úlnið. Úrið brotið.

Mjaðmir… hægri í lagi, vinstri eldrauð, þá kom upp ótti.

Fótleggir… Hægri virðist í lagi, vinstri eldrauður, óttinn magnaðist upp meira.

Ég greip sjálfan mig andlegu taki og tókst að bæla óttann niður örlítið til þess að halda því áfram sem þurfti að gera. 112 Númerið sem allir eiga að kunna. Ég fór að huga að því hvar síminn væri og var hann staðsettur í hægri vasanum sem lá utan á lærinu, hann var heill sem betur fer. Ég var ekki lengi að stimpla inn númerið og fékk strax samband við yndislega konu. Ég gaf upp nafn, hvaðan ég væri, ég væri meðlimur í Björgunarfélagi Akraness og hvað amaði að. Ég sagðist hafa dottið niður brekku og að öllum líkindum miklir áverkar í vinstri mjöðm og læri. Hún hélt mér á línunni í örlitla stund og spurði hún hvort ég vissi nákvæmilega hvar ég væri.

Þá mundi ég eftir því að ég var með GPS tækið meðferðis og tók af mér pokann og þá blasti við mér óþæginleg sjón. Stóra rennda hólfið sem ég tryggði mér karabínu hafði opnast og þutu skóflan, snjóflóðastöngin og leathermaninn minn úr á ferðalaginu niður. Ég athugaði þá í litla hólfið ofan á þar sem GPS tækið var staðsett og til allra lukku var það heilt á húfi og í fullri virkni. Á meðan ég spjallaði við konuna reif ég af mér eina lúffuna og opnaði Map. Fingurinn ýtti fast og öruglega á skjáinn þar sem ég pinnpointaði staðsetninguna mína. Ég las upp hnitin og var hún þakklát mér fyrir það. Ég sagðist ætla að skoða hvað ég gæti gert við löppina og athuga hvort ég næði að spelka hana eitthvað fasta. Að lokum kvöddumst við og sagði hún mér að heyra í mér á u.þ.b. korters fresti og ég samþykkti það. Ég skellti loks á og kom símanum fyrir á öruggum stað í brjóstvasanum innan undir jakkanum.

Þögning tók við og ég varð aftur einn með sjálfum mér. Ég gaf mér nokkrar mínútur í að klára að róa mig og reyna að skerpa hugsunina þó það væri erfitt. ,,Skert BSH” kom upp í hugann á mér.

Þar sem lærið var að öllum líkinum brotið gæti verið æðaklemma eða stífla niður í sköflun og orsakað vöðvadauða, því fór ég að athuga hvernig staðan væri og get ég hreyft ristina upp og niður en það verst var að vinstri fótleggurinn snéri í 45°inn til hægri. Vinstri tærnar störðu framan í hælinn á hægri fætinum.

Ég prófaði að hreyfa hnéð en það var ekki að ræða það, ég fann lærbeinsstubbinn hoppa upp og niður inn í fætinum þannig að ég lét það strax vera. Mjöðmin var aum og dinglaði með og hélt ég því að hún væri einnig brotin.

Þá tók ég karabínuna sem hékk á öðrum flipanum á bakpokanum og smellti öllu því sem lauslegt var í hana og loks í beltisflipann á buxunum, það var nú orðið öruggt. Ég notaði hægri fótinn til að grafa skurð undir sig svo fótfestan væri betri og reyndi aðeins að moka undan rassinum þannig að hann væri kyrr. Eftir allt svona fíneri var komið að því að huga að fætinum.
Einn göngustafurinn lifði ferðalagið af með mér niður og var það sá sem ég hafði notað til þess að reyna að stöðva mig. Hann var þrískiptur og var neðsti hlutinn orðin fallega boginn eftir að hann gaf sig uppfrá. Þá tók ég þann hlutann af og stakk í snjóinn mér á hægri hönd og þeim heila vinstra megin við mig. Ég horfði á hnéð sem var örlítið bogið upp á við og ákvað að ef ég ætlaði að reyna spelkun þyrfti ég að rétta úr fætinum, því beitti ég léttum þrýstingu ofan á hnéð með hægri hendinni og notaði þá vinstri til að halda um lærið og stýra því. Þú mátt þó ekki sjá fyrir þér eitthvað rosalegt scenario, þetta var einungis örlítil beygja. Eftir þetta var kominn nestistími, orðinn þreyttur og þjáður og ákvað þá að athuga hvað eða hvort eitthvað af matnum hafi lifað af. Til allra lukku lifði af hvít súkkulaði plata sem ég hafði fengið frá Nóa Síríus í útkalli tveim dögum áður og hálfur líter af vatni, þetta þyrfti að duga því ákvað ég að skammta mér þetta rólega. Nokkrir sopar ásamt lengju af súkkulaði var fyrsti skammturinn. Loks pakkaði ég því niður og fór að huga að fætinum á ný.

Hann var orðinn eins beinn og ég treysti mér til að laga hann og lagði því göngustafsbútinn sem eftir var ofan á lærið þannig að hann náði frá mjöðm og niður fyrir hné, fullkomin lengd!

Þá næst tók ég bakpokann og lagði vinstra megin við lærið, þann hluta sem snéri upp í vindinn. Ég hélt við þetta með vinstri hendinni á meðan ég teygði mig með þeirri hægri í ónýta hlutann af stafnum og hóf að grafa tvær holur undir vinstri fótinn, það var svo ég gæti bundið utan um hann.

Þetta var þreytandi mokstur og var afraksturinn tvö skítt göt sem dugðu undir spottakrílin af bakpokanum. Þá þræddi ég spottana undir fótinn og dró þá upp norðan megin við fótinn, þar að segja hægra megin. Þeirra leið lá næst upp yfir fótinn og þar tók á móti þeim hinn helmingurinn og urðu þessir helmingar saman að fallegum tussuhnút, hafði ekki hugsun í annað. Að lokum þegar báðir hnútarnir voru klárir var black diamon al’a deuter spelkan klár, ekki falleg en hamlaði þó hreyfingu örlítið.

Ætli að á þessum tímapunkti hafi ekki verið liðnar um 30-40 mínútur og var ofkælingin farin að láta sýna sig. Kári vinur minn var greinilega með það í hyggju að bæta í blásturinn og hélt sínum sviptivindum áfram. Það var þá eina í stöðunni að rífa upp hettuna, renna öllu í botn og reyna að halda hita. Rútinan var orðin þannig að hægri fóturinn fór upp og niður, axlirnar fóru í hringi og hendurnar tóku ónýta stafinn og stungu í snjóinn hægra megin við mig.

Þetta entist að vísu ekki lengi í senn þar sem þreytan kom inn hratt og öruglega, blóðmissir var eitthvað sem var mögulega í gangi. Innan um þessa rútínu gæddi ég mér á súkkulaði og vatni sem dugði skammt en dugði þó og heyrði í neyðarlínunni. Símtölin voru eins og núllpunktur fyrir andlega hlutann, þá varð ég rólegri og gat haldið áfram, svo endurtók þetta sig svona í að þeir telja tvö til þrjá tíma þar til fyrstu menn komu upp, mikið ósköp varð ég glaður.

C

Sérsveitarmenn, sjúkraflutningsmenn og björgunsveitarmenn komnir til Daniels. Búið er að setja Daníel í KED-vesti og dúða með tesppum og úlpum.
Ljósm. Freyr I. Björnsson

Stuttu áður hafði ég heyrt hljóðin í þyrlunni og beindi öllum mínum kröftum í sjónina til þess að reyna að koma augum á þá. Að lokum sáu þeir mig og svifu stutt frá mér, en þá tóku þeir upp á því að fljúga burt. Mér sárnaði rosalega og hringdi strax í neyðarlínuna. Ég spurði hvort þeir höfðu séð mig og var því játað en það slæma var að þeir gætu ekki lent eða sigið til mín þar sem Kári lék erfiðann leik með sína sviptivinda.

Jón og Þórður, galvaskir menn neðan úr Tunguhálsi voru þeir fyrstu sem komu að mér, það er föst ljósmynd í huganum þegar ég sé glitta í neon gula gallana staulast upp á móti vindinum í átt að mér. Þá var létt af mér öllum þeim þungu tilfinningum sem höfðu legið á mér undanfarnar stundir, ég hugsaði bara að mér væri óhætt.

Við heilsuðumst í rólegum róm og þeir settust sitthvorum megin við mig, þetta var afskaplega sérstakt augnablik. Í skamma stund sátum við þrír og horfðum á útsýnið yfir Brynjudalinn sem var hreint út sagt yndislegt. Þá byrjaði Jón að opna bakpokann sinn og reif upp ullarteppi sem hann slengdi yfir mig. Ég man ekki samtölin í þaula en ég gaf þeim létta skýrslu, þeir spurðu mig einnig hvort ég þekkti ekki einkenni losts og ég játaði því með því skilyrði að lofa að láta þá vita ef ég yrði var við breytingar á líkamanum. Ég skalf rosalega, það versta var að þegar vinstri fóturinn skalf, togaði hann í brotið og hristi til og frá, því reyndi ég að slaka henni eins og ég gat leyfa kuldanum að deyfa hana í staðin. Þeir gáfu mér Paratabs og voru einnig með snickers og powerade í töskunni hjá sér, ég var ekki lengi að játa þegar þeir buðu mér. Æðalegg var komið upp á hægra handabaki en slæma hliðin á því máli var……. að þeir gleymdu nálum fyrir morfínið.

I

Björgunarsveitarmenn setja upp tryggingar og línur til að tryggja öryggi Daníels og björgunarmanna við flutning niður mesta brattann
Ljósm. Freyr I. Björnsson

Meðvitundin var orðin það slepjuleg að ég fattaði ekki að kippa mér upp við það. Á þessari stundu fóru sérsveitarmennirnir að koma einn af öðrum upp til mín og hlömmuðu sér í kringum mig til þess að mynda skjól, þessir sömu menn og ég dáðist af á leiðinni inn í Botn. Undanfarar fóru að koma á svipuðum tíma og það bestar var, er hvað þeir voru allir jákvæðir og yndislegir í alla staði. Mér leið eins og ég gæti treyst á þá alla 110%, þeir geisluðu það vel frá sér, ekki nema að mér langaði það heitt heim að ég treysti öllum, eflaust blanda af hvoru tveggja.

Eftir góða stund uppfrá var kominn góður hópur af mönnum sem loks settu mig í KED-vesti til vonar og vara og þegar sprautur bárust var komið að því að snúa löppinni þessar 45°til baka….helvítis.

Jón talaði við mig yfirvegað og rólega, hann fylgdi mér í gegnum þetta skref fyrir skref á meðan hann togaði…. snéri….og lagði fótinn aftur að í rétta stöðu. Sem betur fer var kominn góður kokteill af kulda, blóðleysi og morfíni til þessa að sársaukinn var eflaust miklu minni en gengur og gerist. Þá var komin togspelka og var næsta mál á dagskrá að skella henni utan um fótinn. Það var örlítið verra heldur en hitt en strax eftir var þetta miklu betra.  Til að stytta þetta var mér næst skellt á börur og látinn síga niður klakann með fjóra trausta menn í mannbroddum mér á öllum hliðum. Mér var pakkað niður í teppi og tvær auka úlpur og haldið af stað.

E

Laggt af stað niður með Daníel. Þyrlan þurfti að lenda neðar í fjallinu sökum sviftivinda Ljósm. Freyr I. Björnsson

Sjónarhornið var svart allann tímann og fannst mér það nokkuð notarlegt. Þeir voru duglegir við að athuga stöðuna á mér reglulega, hvort ég væri með meðvitund og heyrði í þeim. Það sem betur fer lukkaðist allt saman vel og á endanum komu þeir mér niður í bíl sem var nokkur hundruð metrum neðar en ég féll, ég féll semsagt í 800 metra hæð. Rann ríflega telja þeir 50-60 metra niður þessa sprænu.

Þá loks komst ég inn í bíl, hlýja og rólegheit, eitthvað það besta sem ég hef upplifað. Jón og Þórður voru þar mættir en á ný og var skellt vökva í æð ásamt því að byrja afklæðninguna. Á þessum tímapunkti skipti það mig engu máli hvað þeir klipptu utan af mér, ég ákvað ekki einu sinni að hugsa um það, þeir björguðu mér og var það nóg fyrir mig. Ég lá sultuslakur, eflaust með eitthvað smáræði eftir á blóðtankinum og naut augnabliksins sem ég hafði. Það gleymist þó einnig seint eins og margt annað í þessu þegar hann var búinn að klippa af mér vinstri buxurnar, að þegar hann fletti þeim frá, þá fyrst gerði ég mér grein fyrir því hversu mikið hafi blætt út um fótinn og að þetta var í raun opið lærbrot. Ég fann bara blóðblautu fötin límast af mér, sem betur fer fékk ég ekki að fylgjast að fullu með.

H

Daníel kominn í bílinn og verið að undirbúa hann til flutnings yfir í þyrluna
Ljósm. Freyr I. Björnsson

Lætin í þyrlunni ómuðu utan við bílinn þegar við nálguðumst hana og stuttu síðar steig þyrlulæknirinn inn og spjallaði við þá og mig í stutta stund, því miður var meðvitundin orðin það slök að ég man lítið eftir því. Hann gaf þeim skipanir um ákveðna lyfjaskammta og var þeim dælt í mig samstundis.      Þá datt ég út….

Augun opnuðust í nokkur sekúndubrot og það sem blasti við mér var andlitið á pabba. Eftir á að hyggja, mögulega erfiðasta stund lífs míns tilfinningalega séð. Maðurinn sem hefur verið mér við hlið í tuttugu ár, klætt mig, gefið mér mat, haldið mér í hreyfingu og hugsað um mig eins og engil, var aftur mættur til mín. Pabbi minn. En augun lokuðust aftur.

Næst þegar ég vaknaði sá ég hinn helminginn í lífinu, konuna sem ól mig og kom mér á legg, han mömmu. Við hlið hennar stór bróðir minn hann Lárus og að lokum pabbi. Öll voru þau mætt til þessa að passa upp á mig, mig? Litla vitleysinginn í fjölskyldunni sem var alltaf svo ofvirkur og klikkaður, hlýddi engu en þau studdu mig samt.

K

Búið að skrúfa samann brotið og endurhæfing hafin

Þarna lá ég, uppdóapaður og með lítinn skilning á þeim tilfinningalegu aðstæðum sem áttu sér stað innra með öllum þeim sem hugsuðu til mín, og get ég eflaust aldrei skilið það að fullu. Tíminn var lengi að líða en þau hurfu aldrei úr augnsýn, mamma sat við hlið mér og gaf mér nokkra dropa af vatni í einu með litlum pinnasvampi sem hún fékk. Það versta var þessi ofboðslega þorstatilfinning en að geta ekki svalað henni var það versta. Þessir dropar þó björguðu mér alveg andlega séð.

Til að enda þessa sögu hélt ég loks í aðgerð upp úr miðnætti en þyrlan lenti á spítalanum með mig um hálf sjö leitið, það leið því dágóður tími þar sem rannsóknir, myndatökur og fleira fór fram.

Að lokum var beinið nelgt þar sem teinn var þræddur í gegnum merginn og skorðaður af með fjórum skrúfum.

Þetta lukkaðist allt sem betur fer vel….

 

Eftir á að hyggja sé ég hvað öll sú þjálfun og menntun sem ég hef hlotið bæði í gegnum lífið og einnig hjá Björgunarfélaginu skipti sköpum á svona mikilvægum tímapunkti. Vinir, félagar og allir þeir sem í kringum mig eru hafa staðið við bakið á mér eins og stólpar og aldrei vikið frá því. Allt það fólk sem ég hef safnað í gegnum tíðina hefur skilað mér svo miklu og eiga þau allar mínar bestu kveðjur og hið ýtrasta þakklæti skilið.

N

Hér er svo Röntgen mynd af brotinu

Sérsveit ríkislögreglustjóra, sjúkraflutningamennirnir úr Tunguhálsi, neyðarlínan, Björgunarfélögin og allir þeir sem komu að þessari aðgerð eiga það mikið þakklæti inni hjá mér, sem ég hreinlega get eflaust aldrei komið til skila. Þetta fólk bjargaði lífi mínu, einu litlu lífi sem hefur opnað þær dyr að leyfa mér að halda áfram mína leið. Þótt umræðan í samfélaginu sé á mörgum köflum slæm gleymum við oft að við búum í litlu, samheldnu og yndislegu landi. Hér hjálpast allir að þegar neyðin er stærst og er það svo mikilvægt að muna. Við erum ein lítil, ríflega 330.000 manna fjölskylda og eigum að vera góð við hvort annað, því stutt er á milli lífs og dauða á köflum.

Í dag, 19 apríl eru 6 vikur síðan þetta átti sér stað og hefur batinn verið hreint út sagt ótrúlegur. Ég er orðinn fullfær um að ganga, synda, hjóla og lifa daglegu lífi þó að styrkurinn og batinn eigi enþá langt í land. Það erfiðasta hefur þó verið andlega hliðin. Fyrstu dagana var ég í mikilli afneitum um sálræna hjálp enda horfi á mig sem sterkann einstakling sem gæti skrapað sig í gegnum þetta einn og óstuddur, en það var svo sannarlega ekki raunin. Þetta hafa verið strangar vikur og hafa þær reynt mikið á, en í dag er þetta allt að hafast þó að ekki sé en í höfnina komið.

Þessi pistill er en eitt skrefið í sálfræðilegu ferli og get ég sagt það í hreinskilni minni að það komu nokkur tár við rit hans, þá sérstaklega þegar ég rifja upp þá erfiðu stund að hitta foreldra mína í fyrsta skiptið, tilfinning sem mun aldrei gleymast.

Eflaust er margt sem óritað er varðandi eftirmála en það mun þá bara berast áfram til þeirra sem ég tala við undir fjögur augu. Þó ætla ég ekki að setja mig í þá stöðu að verða vitringur og öryggisfræðingur heldur vil ég deila þessari reynslu í von um að fólk læri af henni með mér og geti notað hana til góðs í sínu lífi. Ég gæti endað þetta með vísu eða ljóðbút en kýs að gera það ekki, held að orðin í pistlinum séu nóg til að lýsa mínum tilfinningum í dag.

Ég þakka fyrir mig.

-Daníel Magnússon

 

Deila á Facebook