26 Nov 2004
November 26, 2004

Landmannalaugar 18.- 19. júní 2004.

Föstudaginn 18. júní skruppum við fjögur í Landmannalaugar og voru þar á ferðinni undirritaður ásamt Belindu, Eyþóri og Gunnari Agnari. Upphaflega stóð til að hópurinn yrði stærri, en ýmissa hluta vegna fækkaði í hópunum uns við vorum fjögur eftir.

Klukkan var svo langt gengin átta þegar við lögðum af stað. Fyrsta „sjoppustoppið“ var á Kjalarnesinu, enda kom í ljós að gleymst hafði að taka bensín á bílinn hjá Eyþóri. Úr Esjuskálanum ókum við sem leið lá að hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum. Þar var stoppað til að fá sér kaffibolla, rétta aðeins úr fótunum og fá sér ferskt loft. Hingað til höfðum við ekið á malbiki alla leið, en nú tók við grófur malarvegur. Var því tækifærið nýtt til að leiðbeina okkur Eyþóri í akstri á fjallvegum. Varð það úr að ég settist undir stýri á bílnum hjá Gunnari Agnari, en Bella færði sig yfir í bílinn til Eyþórs. Fregnaði ég síðar að á leiðinni hefði Eyþór fengið sérlega nákvæmar leiðbeiningar og greinargóðar hjá Bellu og jós hann miklu lofi á hana fyrir ökukennsluna.

Þegar í Landmannalaugar var komið um kl. 23, var byrjað á því að tjalda. Ég hafði boðið fram tjaldið mitt í leiðangurinn, en varð að viðurkenna að það væri reyndar eldgamalt og hið mesta gargan. Þá fylgir tjaldinu sú náttúra að hvar sem því er slegið upp brestur strax á með stórrigningu og hvassviðri, jafnvel þótt spáð hafi verið blíðskaparveðri. Það varð því úr að tjaldið væri best geymt niðri í kjallara. Við Eyþór vissum að Belinda ætlaði að taka með sér tjald, en þar sem við vissum ekki hvort það væri nógu stórt fyrir okkur fjögur, tókum við með okkur bivouac til vonar og vara. Það reyndist ónauðsynlegt, Bella hafði fengið lánað tjald eitt svo stórt og mikið að sérhver farandsirkús hefði verið fullsæmdur af. Er þetta reyndar í fyrsta skipti sem ég hef séð tjald með innibyggðum tvöföldum bílskúr. Bivouacarnir voru því ekki notaðir í þessari ferð. En þó að tjaldið mitt hafi verið skilið eftir heima byrjaði nú samt að rigna. Það kom þó ekki að sök enda tjaldið hennar Bellu snöggtum skárra en mitt.

Strax og tjaldið var komið upp var hafist handa við að grilla og matreiða hinar ýmsu krásir. Að lokinni máltíð var rætt um að skella sér í heita lækinn. Ég hafði haft af því spurnir að einhver ógurleg kvikindi væru komin í heita lækinn og hrelldu sundmenn. Er hér um að ræða
Trichobilharzia ocellata, eða „andapöddur“ eins og við kölluðum þetta. Krakkarnir sögðust nú ekki láta svona fæla sig frá sundsprettinum og að þau myndi bara bíta „andapöddurnar“ til baka ef þær væru með einhvern derring. Ég þorði hinsvegar ekki í laugina, enda hefur mér alltaf verið einhvernveginn hálf illa við að láta sníkjudýr úr fiðurfé éta á mér heilann.

Um morguninn tókum við svo saman tjaldið og keyrðum um og skoðuðum merka staði. Renndum við að Þjóðveldisbænum, en þar var svo mikil ös að við nenntum ekki inn að skoða hann, en fórum þess í stað að Stöng til að skoða upprunalegu rústirnar. Eftir að hafa skoðað markverða staði var farið til Hveragerðis. Þar fóru Belinda, Eyþór og Gunnar Agnar í sund, en ég fór á flandur að leita mér að kaffihúsi, enda orðin mjög kaffiþyrstur. Þegar krakkarnir komu úr sundi, skruppum við í Eden og fengum okkur í svanginn. Þar sáum við líka hæstlaunaða mann á Íslandi, enda reiknaðist okkur svo til að hann hefði 900 þúsund á tímann. Var þetta listamaður sem málaði myndir sem hann seldi gestum og gangandi á fimmþúsundkall stykkið. Hann var hinsvegar ekki nema 20 sekúndur með myndina svo tímakaupið hefur verið dágott.

Í Hveragerði skildu svo leiðir. Bella og Gunnar Agnar fóru í heimsókn til kunningja síns í Hveragerði, en við Eyþór fórum upp á Skaga. Lauk þar ágætri ferð.

Deila á Facebook