26 Nov 2004
November 26, 2004

Núpsstaðaskógur-Skaftafell 14-18 júlí 2004

Miðvikudagskvöldið 14. júlí lögðu nokkrir félagar Björgunarfélagsins af stað í fjögurra daga gönguferð úr Núpsstaðaskógi yfir í Skaftafell. Í ferðina fóru þeir bræður Gunnar Agnar og Haukur, Belinda, Silvía, Maggi Kalli og Gísli. Og svo var ég þarna líka. Sigurður Axel hafði tekið það að sér að skutla okkur í Núpsstaðaskóg og sækja okkur svo í Skaftafell að ferðinni lokinni. Sló hann þar raunar þrjár flugur í einu höggi; skutlaði okkur í Núpsstaðaskóg, bauð frúnni í rómantískan bíltúr og byrjaði að þjálfa erfingjann í jeppamennsku. Á leiðinni stoppuðum við á Selfossi þar sem við gæddum okkur á hænsnum matreiddum að hætti heimamanna og náðum okkur í Bændablaðið og aðra skemmtilega lesningu til að hafa með í ferðina. Um miðnætti vorum við svo komin á Núpsstað þar sem við tjölduðum við hliðina á hinum glæsta fjallatrukki „Gnúpi“.

Lagt af stað

Um morguninn vöknuðum við svo kát og hress, tókum okkar hafurtask og settumst inn í fjallatrukkinn Gnúp, sem flutti okkur inn í Núpsstaðaskóg. Gnúpur þessi er reyndar merkilegt ökutæki. Eftir því sem mér skildist, þá er þetta StuDeBaker módel nítjánhundruðfimmtíuogeitthvað, með Benz húsi. Þó trukkurinn sé nú heldur kominn til ára sinna, þá er í honum ný innrétting og ekki undan neinu að kvarta að ferðast með honum. Með okkur í Gnúpi var hópur frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum sem var að fara sömu leið og við. Eftir stutta göngu í gegnum kjarrið meðfram Núpsá komum við að Kálfsklif, kletti einum þverhníptum sem klifra þurfti upp og hékk þar digur keðja. Krakkarnir bókstaflega hlupu upp klettinn með bakpokana á bakinu, en því þorði ekki með nokkru móti. Gunnar Agnar dró pokann minn til sín og síðan skrönglaðist ég upp með miklum harmkvælum og var óralengi að. Það var þó vel þess virði, því af klettinum blöstu við tveir fossar þar sem runnu saman bergvatnsá og jökulá ofan í sama hylinn. Heitir þar Tvílitihylur (en ekki Tvíbökuhylur, eins og mér varð á að kalla hann), enda er hylurinn tær þar sem bergvatnsáin rennur ofan í hann, en grár þar sem jökulvatnið kemur í hann og sjást skilin greinilega.

Skessutorfugljúfur

Áfram var svo haldið þar til við komum í Skessutrofugljúfur, að mér hætti nú alveg að lítast á blikuna. Þurftum við að fara upp (að mér fannst) snarbratta skriðu í þröngu gili. Sem fyrr hlupu krakkarnir þetta upp á mettíma, en ég paufaðist upp með lífið í lúkunum allan tímann. Sem betur fer voru bæði Bella og Gunnar Agnar þarna með mér og pössuðu að ég færi mér ekki að voða. Man ég reyndar ekki eftir því að hafa ákallað Jesúm jafn oft á svo skömmum tíma enda ekki neitt sérlega trúrækinn maður svona dags daglega.

Þegar ég var kominn upp úr gilinu sóttist mér leiðin betur þótt ekki hafi ég farið hratt yfir. Að endingu komumst við á tjaldstæðið þar sem við gistum eftir þennan fyrsta dag göngunnar. Slógum við upp tjöldum í ágætis veðri skammt frá Núpsá þar sem heitir Sléttur. Af tjaldstæðinu var hið fegursta útsýni og var Vatnajökullinn tilkomumestur. Mátti þar sjá meðal annars „Geirvörtur“ og Þórðarhyrnu, en svo kallast fjöll er standa upp úr jöklinum.

Eftir að tjöldin voru komin upp og menn búnir að fá sér í svanginn og slappa aðeins af, fóru flestir í stuttan göngutúr ásamt hópnum frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Róbert, leiðsögumaðurinn þeirra, var búinn að fara þessa leið 10-11 sinnum og vissi um stað þar sem áin hafði áður runnið og grafið mikla skessukatla. Þar voru líka mjög fallegar klettamyndanir úr bólstrabergi sem áin hafði tálgað og máð. Að kvöldgöngunni lokinni var aðeins tekið í spil og svo fóru menn að sofa um kl 23.

Að Grænalóni

Við vöknuðum svo um morguninn klukkan hálf átta. Þegar við vorum búin að fá okkur morgunmat og ég búinn að eyða löngum tíma í að reyna að koma öllu draslinu mínu í bakpokann var lagt af stað. Gengum við sem leið lá að Grænalóni, en það er í lægð sem Skeiðarárjökull stíflar.
Grænalón er um margt merkilegt. Það var í eina tíð næststærsta jökullón á Íslandi (15 km²), en það hefur minnkað mikið, svo ég veit ekki hvort það er ennþá næststærst. Þegar vatnsstaðan í lóninu er hæst er það um 200 metra djúpt og því með dýpstu vötnum á landinu. Þegar jökullinn var þykkari, náði vatnið ekki að lyfta jöklinum, og flæddi úr því yfir þröskuld og ofan í Núpsá. Nú er jökullinn hinsvegar þynnri og tæmst lónið undir Skeiðarárjökul og koma þá hlaup í ána Súlu. Róbert, leiðsögumaðurinn með hópnum frá ÍFLM, sagðist hafa verið á ferð með hóp tveimur vikum áður. Á þeim tíma hefði vatnsborð Grænalóns minnkað um circa tvo metra. Áður hefur lónið því verið enn tilkomumeira.

Þegar við komum að lóninu settumst við niður og borðuðum hádegismat á máðum klettum við strönd lónsins. Var þar ægifagurt útsýni; lónið, Grænafjall og Vatnajökull í norðri, en Skeiðarárjökull til austurs. Á lóninu mátti sjá stöku ísjaka á floti, þótt ekki hafi þeir verið mjög stórir. Gengum við svo meðfram lóninu og þurfti á köflum að krækja fyrir litla „firði“, enda hafði einhver á orði að þetta væri eins og að keyra Austfirðina, ganga nokkurn spöl til að krækja fyrir lænur sem næstum því var hægt að stökkva yfir.

Eftir að hafa stoppað nokkra stund og dáðst að útsýninu, kom hópurinn frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Vorum við samferða yfir tvær ár sem renna í lónið. Voru þetta einu árnar sem þurfti að vaða í ferðinni. Eftir að hafa vaðið árnar laumaði ég mér inn í hópinn hjá ÍFLM og fór með þeim að tjaldstæðinu. Gaf ég krökkunum þær skýringar að ég hafi verið að tékka á því hvort ég gæti ekki „hösslað“ einhverjar kerlingar þar, eins og sagt var í mínu ungdæmi. Því miður varð minna úr „hösslinu“ en til stóð. Ég hef kannski gefið kerlingunum of hýrt auga, því að um leið og sást aftur í hópinn frá BA, kallaði einn úr ÍFLM hópnum „Hei, þú þarna skáti, félagar þínir eru þarna fyrir ofan.“ Ekki finnst mér ég nú vera neitt sérlega skátalegur, en það er nú annar handleggur og áfram með söguna.

Við tjölduðum svo á malarhjalla stutt frá jökulröndinni. Þar var útsýnið alveg frábært; Grænalón fyrir neðan og jökullin til austurs. Handan jökulsins mátti svo sjá Færnes, en þangað skyldi einmitt ganga næsta dag. Eftir matinn settust Bella, Maggi Kalli, Gísli og Haukur niður og spiluðu Lúdó. Haukur varð svo Grænalónsmeistari 2004 í Lúdó og sigraði glæsilega.

Lagt á jökulinn

Næsta dag vöknuðum við klukkan sjö, enda langur dagur framundan. Nú skyldi ganga yfir jökulinn. Ég hafði heyrt að jökullinn væri alveg sléttur og átti því von á að það væri nú lítið mál að ganga yfir rennisléttan jökul, bara svona eins og að rölta niður Vesturgötuna. Svo reyndist ekki vera. Því miður. Jökulinn var barasta langt í frá rennisléttur. Voru þar óteljandi litlar sprungur og vatnsrásir sem ganga þurfti yfir og meðfram. Varð ég fljótt ansi þreyttur á plampinu. Þá er þess að geta að ég er einn ófótvissasti maður á Íslandi, svo ekki bætti það úr skák. Að endingu rifu krakkarnir helminginn af dótinu upp úr bakpokanum mínum og bættu í sína poka. Eftir það gekk mér betur, en var þó alltaf langsíðastur. Eftir langa, langa göngu (að því er mér fannst) komum við í Svörtuskóga, en það er „skógur“ af sandhryggjum og ískeilum þöktum sandi á miðjum jöklinum. Hef ég aldrei, hvorki fyrr né síðar séð neitt líkt þessu. Landslagið þarna var eins og því hefði verið kippt út úr ævintýrum Tolkiens.

Alltaf batnar útsýnið

Þegar við tókum að nálgast Norðurdal skildi ég loks hvað menn áttu við með því að jökullinn væri að mestu sléttur. Þar sem jökulinn lá inn í dalinn voru sprungurnar miklu stærri og dýpri en verið hafði uppi miðjum skriðjöklinum. Tókst mér á endanum að komast í gegnum sprungusvæðið og af jöklinum. Loksins var svo tjaldað eftir að hafa paufast upp bratta brekku að tjaldstæðinu. Og hvílíkt tjaldstæði!! Útsýnið var hreint út sagt frábært. Við tjölduðum undir Færneseggjum og heitir þar að ég held Svalir. Þaðan er útsýni alveg magnað og þarf mikið til að toppa það. En það gerðu Bella og Silvía reyndar, því þær skruppu inn að læk til að þvo af sér svitann. Þær gættu þess þó ekki að til þeirra sást frá tjaldstæði ÍFLM, svo að sá hópur fékk ekki aðeins að sjá „Tolkienesque“ landslang heldur hefur þeim virzt sem komnar væru nymfur úr föruneyti Artemisar að baða sig í læknum. Það er kannski orðið heldur háfleygt að vera að blanda grískri goðafræði inn í þetta, en það er amk. nokkuð öruggt að það hafa ekki verið neinar „skessutorfur“ sem þeir sáu, enda bæði Bella og Silvía sérlega fríðar stúlkur og föngulegar.

Ég er kannski bara svona mikill perri, en mér þótti nú hálf fúlt að missa af þessu, því meðan hópurinn frá ÍFLM góndi andaktugur á stelpurnar sat ég þar rétt hjá og þvargaði við strákana um pólitík og sá ekki neitt. Stelpurnar töldu þó að þær hefðu verið svo langt í burtu að enginn hefði séð neitt merkilegt. Það getur svo sem vel verið, en það var amk mikið hlegið og tóku stelpurnar því ekkert voðalega illa þó þeim væri strítt með þessu. Menn voru enn hálf-brosandi þegar þeir skriðu í svefnpokana eftir að hafa fengið sér heitt Swissmiss og kvöldsnarl.

Í Skaftafell

Morguninn eftir var aftur vaknað um sjöleitið. Eftir að hafa tekið saman tjöld og bivouaca var haldið af stað yfir í Skaftafell. Var fyrst gengið í Norðurdal og þar upp bratta fönn. Við vorum samferða ÍFLM hópnum, og fór Róbert leiðsögumaður fyrstur og hjó spor fyrir hópinn. Ég hélt að nú væri barasta mitt síðasta komið, því mér fannst sporin vera svo lítil og hál, en komst þetta nú á endanum með miklum harmkvælum. Á leiðinn upp benti Róbert okkur á Jöklasóley (Ranunculus glacialis) og brýndi fyrir mönnum að stíga ekki á hana, enda er hún alfriðuð. Áfram var svo gengið upp á fjallshrygginn þar sem er skarð milli Norðurdals og Vesturdals. Þaðan var tekinn útúrdúr upp á Blátind (~1170m)og setti ég þar mitt persónulega hæðarmet, en fram að þessu hafði ég aldrei farið neitt hærra en á Heiðarhorn (1054m).

Áfram var haldið niður Vesturdal. Nú lá leiðin niður í móti og öllu skárra en þegar farið var upp. Þó fann ég vel fyrir því að lappirnar á mér væru ekki vanar svona miklum halla og verkjaði mig í allskyns vöðva sem ég hafði ekki hugmynd um að væru til. Að endingu komum við svo niður í Bæjarstaðarskóg. Hittum við þar fyrir foreldra hennar Bellu og gengu þeir með okkur síðasta spölinn. Nú er komin ný göngubrú yfir Morsá, þannig að við sluppum við að fara upp á Skaftafellsheiði, en gengum þess í stað eftir aurunum í Morsárdal. Þar var landið marflatt, og fór eins og segir í biblíunni að „hinir síðustu munu fyrstir verða“ því ég færðist allur í aukana og að endingu fór það svo að ég sem alltaf hafði verið lang síðastur var ásamt Magga Kalla fyrstur að þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli, þar sem ferðin endaði. Ég á reyndar ekki von á því að það hafi verið vegna þess að ég væri svo voðalega hraðskreiður, heldur hafi það nú frekar verið vegna þess að aðrir í hópnum voru ekkert að flýta sér og kannski byrjaðir að slaka á eftir ferðina. Ég hafði líka að miklu að stefna, því ég var búinn að lofa sjálfum mér því að um leið og ég kæmi í þjónustumiðstöðina skyldi ég fá mér stærsta bolla af kaffi sem þar væri boðið uppá. Og þá meina ég ekta kaffi. Ekki Nescafé með kjúklinganúðlubragði eða hlandvolgt mjólkurlaust kaffi með sandi eins og ég hafði drukkið í ferðinni fram að þessu. Tilhlökkunin var ægileg og mér leið orðið eins og Sisýphusi, því alltaf þegar ég hélt að ég væri að verða kominn, þá var smá kafli eftir og hreytti út úr mér við Magga hvort þessi andsk… þjónustumiðstöð væri á Hornafirði eða hvað. Þá sá ég loksins fyrirheitan landið, eða réttara sagt fyrirheitnu þjónustumiðstöðina. Mikið rosalega var þetta svo góður kaffibolli sem ég fékk þarna.

Haldið heim á leið

Í Skaftafelli skildu svo leiðir. Bella og Gunnar Agnar urðu eftir í Skaftafelli, en við hin héldum heim á leið. Sigurður Axel og fjölskylda voru mætt á Akri 3 að sækja okkur. Á Kirkjubæjarklaustri var stoppað og skruppum við í snögga sturtu í sundlauginni þar, enda veitti ekki af að skola af okkur svitann eftir ferðina. Eftir að hafa fengið okkur að borða í Skaftárskála, var svo brunað beina leið upp á Skaga. Lauk þar hreint útsagt frábærri ferð.

Helgi Steindal

Deila á Facebook