26 Nov 2003
November 26, 2003

Nýliðagrein 2003

Góðan dag, Jón Valur heiti ég, meðlimur á fyrsta ári í Björgunarfélagi Akraness, svokallaður “nýliði”.
Í þessari grein ætla ég að fræða þig örlítið um nýliðastarf B.A., segja frá væntingum mínum til félagsins og koma minni skilgreiningu á hugtakinu Björgunarsveit til skila.

Ég hef alla tíð verið veikur fyrir bláum ljósum og sírenuvæli, þó sérstaklega þegar ég var smápatti, það kom aldrei neitt annað til greina en að verða lögga, slökkviliðsmaður eða keyra sjúkrabíl. En þann 2. október 2003 sá ég auglýsingu uppá vegg í skólanum að 10 lausar nýliðastöður væru í boði í Björgunarfélaginu og viti menn, minn maður var mættur á fund kl 20:00 samdægurs, staðráðinn í því að láta þetta tækifæri ekki framhjá sér fara. Þjálfararnir okkar voru ekki af verri endanum og ljóst var að reynslan var töluverð sem miðla átti til okkar. Þetta voru engin önnur en þau Gunnar Agnar Vilhjálmsson, Belinda Eir Engilbertsdóttir, Jóhann Pétur Pétursson og Birna Björnsdóttir. Okkur var gert ljóst strax í upphafi að dagskrá vetrarins yrði ströng og það þyrfti að gefa nægan tíma og þolinmæði í starfið. Strax á fyrstu vikunum fór fólk að grysjast úr hópnum, hreinlega þoldi ekki álagið. Nú í dag er nýliðahópurinn 2003 nokkuð samrýndur og öflugur hópur.

Áður en ég gekk í félagið hélt ég að “björgunarsveit” væri bara liðið sem selur raketturnar og leitar að rjúpnaskyttunum, en það var aldeilis ekki. Þegar þú ert í félagi sem þessu verður þú að standast ákveðnar kröfur, s.s. vera fyrirmynd og vera tilbúinn að gera annað en bara hlaupa af stað og bjarga fólki, eins og til dæmis, sækja námskeið, selja jólatré, selja flugelda, sækja fundi, fara í gæslur svo fátt eitt sé nefnt. Þú verður að vera tilbúinn til að gefa þessu gífurlegan tíma og sína virkilegan áhuga, til að fá að vera með.

Hvað er Nýliðastarfið og Af hverju er ekki bara hægt að verða björgunarmaður STRAX ?
Í B.A. tekur það að jafnaði 2 ár að verða fullgildur meðlimur félagssins. Það má í raun segja að þú sért í skóla (Björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar) þegar þessum tveimur árum er lokið þarftu að hafa staðist ákveðin námskeið, þau eru Rötum, Ferðamennska, Fjallamennska, Leitartækni og Fyrstahjálp 1 og 2. Þessi námskeið eiga að kenna þér grunnatriði björgunarstarfa og eiga að gera þig tilbúinn til að sinna útkalli hvenær sem er og við hvaða aðstæður sem er. Hafir þú öðlast þessa menntun ertu orðinn svokallaður Björgunarmaður 1. sem þýðir að þú kemst á útkallslysta hjá félaginu. Að því loknu er æskilegt að þú endurmenntir þig hellst með árs millibyli. Björgunarmaður 1 veitir svo 4 einingar í F.V.A. einnig eru önnur námskeið metin til eininga. Svo er að sjálfssögðu hægt að sérhæfa sig á vissum sviðum, en ég ætla ekki að fara nánar úti það hér.

Þetta starf hefur gert töluvert fyrir mig sem einstakling, ég hef séð hversu mikilvægt það er að geta gert gagn í þjóðfélaginu og ég efast ekkert um það að þetta starf á eingöng eftir að efla mig og styrkja. Með þessum orðum vil ég þakka öllum þeim sem komu á einn eða annan hátt að útgáfu þessa blaðs og sérstaklega þeim sem leggja sitt að mörkum til að Akurnesingar geti starfrækt gott og öflugt björgunarfélag. Meðan ég óska öllum Akurnsingum gleðilegs nýs árs hvet ég alla til að kynna sér nýliða starf félagsins og félagið sjálft nánar og vonast til að sjá ný andlit á næsta tímabyli. Að lokum vil ég minna á heimasíðu félagssins www.bjorgunarfelag.is
Takk fyrir mig.

Jón Valur Ólafsson

Deila á Facebook