30 May 2014
May 30, 2014

Sjómannadagurinn á Akranesi

Akraneshöfn

Fjölskylduskemmtun á Sjómannadaginn  Björgunarfélag Akraness sér um fjölskylduskemmtun í samstarfi við Akraneskaupstað og Verkalýðsfélag Akraness, sunnudaginn 1. júní nk. kl. 13.00 – 17.00 á og við Akraborgarbryggjuna.

Vegna fjölda áskorana verður sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur með fjölskylduskemmtun en boðið verður upp á hoppukastala, koddaslag yfir sjó, kassaklifur og fleira.

Þyrla kemur í heimsókn um klukkan 16.00 til að sýna björgun úr sjó með fyrirvara um að hún sé ekki upptekin í björgunarverkefni.

Sérstök keppni verður fyrir ofurhuga, en hún felst í því að hoppa í sjóinn fram af Akraborgarbryggjunni. Dómnefnd fylgist með og verðlaun verða veitt.

Hægt verður að fara í siglingu auk þess sem það verður kynning á kajökum og allir bátar Björgunarfélagsins verða til sýnis; Margrét Guðbrandsdóttir, Axel S. og Jón M.

Frítt er í sund í Bjarnarlaug þessa helgi vegna 70 ára afmælis laugarinnar þann 4. júní og verður boðið upp á akstur á milli Bjarnalaugar og hafnarinnar á björgunarsveitarbíl. Opnunartími Bjarnalaugar laugardaginn 31. maí og 1. júní er kl. 09:00-17:00.

Að venju verður Hátíðarguðsþjónusta kl. 11.00 í Akraneskirkju og verða sjómenn heiðraðir við messuna.TF-LIF_8461_1200

Hið hefðbundna sjómannadagskaffi verður í Jónsbúð kl. 13:30 – 17:00 í höndum Slysavarnadeildarinnar Líf.

Vitinn verður opinn milli kl. 13.00 og 16.00 en Sigurbjörg Þrastar, bæjarlistamaður Akraness opnar sýningu í vitanum laugardaginn 31. maí sem opin verður að hluta til sumarlangt. Sigurbjörg sýnir ljóð um hafið og fleira í vitanum.

Deila á Facebook