26 Nov 2010
November 26, 2010

Undanfarar Björgunarfélags Akraness

Meðlimir björgunarsveita á Íslandi eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir. Hlutverk innan sveitanna eru fjölmörg og verkefnin sem við leysum spanna óendalega fjölbreytt svið, þar má nefna verðmætabjörgun, leit að einstaklingum og jafn vel nokkurra daga leitar og björgunaraðgerðir á hálendi Íslands. Þetta eru einungis þrjú dæmi um þau verkefni sem björgunarsveitirnar taka að sér.

Innan björgunarsveitanna ríkir mikill metnaður, flestir vilja vera hæfari, kunna meira, komast lengra og veita sérhæfða aðstoð. Þegar neyðin kallar þá snýst allt um þetta, að komast sem hraðast og öruggast til bjargar. Að koma þeim slasaða sem fyrst í öruggt skjól og undir læknishendur.

Innan nokkurra björgunarsveita Slysavarnarfélagsins starfa svokallaðir undanfarahópar. Innan þeirra raða er fólk sem er hæfara, kann meira, kemst lengra og getur veitt sérhæfðari aðstoð. Þetta björgunarsveitarfólk þarf að uppfylla miklar kröfur, m.a. í fyrstu hjálp, sérhæfðri fjallabjörgun og rústabjörgun svo eitthvað sé nefnt. Þetta er sem sagt fólk sem gefur sig út fyrir að fara til aðstoðar í hvaða veðri sem er og er alltaf búið til þess að vera upp á sjálft sig komið með mat og skjól í 24 klst. Geta sem sagt starfað algerlega óháð öðrum hópum í sólarhring. Þessir hópar eru byggðir upp af 6-8 einstaklingum, allir með sömu grunnþekkinguna og reynsluna, m.a. í fjallamennsku, rötun, fjallabjörgun og fyrstu hjálp en svo með dreifða sérþekkingu t.d. í sjúkraflutningum, sérhæfðari fjallabjörgun og mati á snjóflóðum svo eitthvað sé nefnt.

Hugmynd sú að stofna undanfarahóp á Akranesi er nokkur ára gömul og á rætur að rekja inn í gömlu Hjálparsveitina. Áhuginn fyrir því að vera fyrsta sveitin utan höfuðborgarsvæðisins til þess að stofna undanfarahóp var alltaf mikill, en það var ekki fyrr en eftir sameiningu sveitanna á Skaganum að hjólin fóru að snúast.
Við settum okkur tveggja ára markmið, að ljúka þjálfun á 6-8 manna hóp sem gæti uppfyllt kröfur og reglur um undanfara. Fyrir voru 2-3 sem uppfylltu kröfurnar þegar, og það var í þeirra höndum að sjá til þess að hinir stæðu sig.
Fyrir höndum voru margir mánuðir af þjálfun, ferðum og námskeiðum. Allir lögðust á eitt, til þess að komast á leiðarenda og að verða undanfarar.
Í upphafi lagði ákveðinn fjöldi af stað í þessa þjálfun, hópurinn var samheldinn og aðeins þrír aðilar drógust aftur úr. Hápunkturinn var í febrúar 2005, þegar 5 meðlimir BA fóru vestur á Gufuskála á 5 daga námskeið í fjallamennsku. Námskeiðið var mjög stíft og að því loknu voru þátttakendur hæfir til þess að kenna fjallamennsku innan björgunarsveita Landsbjargar. Leiðbeinendurnir á námskeiðinu voru 3 og einn af þeim var ég sjálfur. Allir 5 stóðu sig með eindæmum vel fyrir vestan og strax að því loknu hélt ég norður til Dalvíkur ásamt Sigurði Kára þar sem við tók námskeiðið Lewel 1 í snjóflóðum. Þetta var vikunámskeið í mati á snjóflóðahættum og snjóflóðaleit. Leiðbeinendurnir voru tveir kanadískir snjóflóðasérfræðingar, og að loknu námskeiðinu urðum við vottaðir hættumatssérfræðingar í snjóflóðum í Kanada, Íslandi og víðar.
Það kom svo að því að þjálfunarferli okkar var loksins lokið og komið að úttekt. Það var fyrir fram ákveðinn dagur s.l. vor sem fulltrúar okkar samtaka mættu á svæðið. Það var að kvöldi til sem að við fengum boð um að mæta í hús og búa okkur undir útkall á Langjökli, í leit að týndu fólki. Innan 10 mínútna voru átta undanfarar mættir í hús og byrjaðir að græja sig fyrir útkallið. Áður en 15 mínútur voru liðnar vorum við lagðir af stað úr húsi, klárir til 2 daga leitar á jökli. Prófið var þannig að við vorum stöðvaðir fyrir utan dyrnar og farið yfir allt sem við höfðum pakkað niður, við fengum örfáar ábendingar um það sem betur hefði mátt fara í búnaði og tókum við það til skoðunar.
Það var svo á Landsþingi Slysavarnafélagsins Landsbjargar í maí 2005 sem formlega var kynnt til leiks fyrsta undanfarasveitin utan höfuðborgarsvæðisins, það vorum við félagar í BA.
Loksins eftir langa og stranga þjálfun var markmiðinu náð, undanfarahópur Björgunarfélags Akraness.

Gunnar Agnar Vilhjálmsson

Deila á Facebook