Björgunarfélag Akraness

Stund milli stríða

Stund milli stríða

Björgunarfélag Akraness er alhliða björgunar- og hjálparsveit. Við viljum vera fær um að bregðast við hverskyns hjálparbeiðnum bæði til lands og sjávar og miðast starf sveitarinnar við það markmið. Innan sveitarinnar starfa nokkrir flokkar sem sérhæfa sig í leit og björgun á sínu sviði. Eru það Landflokkur, Sjóflokkur og Tækjaflokkur.

Björgunarsveitir koma helst í sviðsljósið þegar þær eru kallaðar út til að bregðast við óhöppum og slysum. Það er ekki á hverjum degi sem björgunarsveitir eru kallaðar út til að bregðast við neyðarástandi. En við vitum öll að kallið kemur, fyrr eða seinna. Og þá viljum við vera tilbúin og geta brugðist fljótt og örugglega við. Til þess að svo megi vera þurfum við að afla okkur þekkingar, viðhalda henni og æfa. Í raun má líkja starfi björgunarsveitanna við ísjaka: stærsti hluti þess er undir yfirborðinu því sá mikli tími sem fer í æfingar og undirbúning er lítið í sviðsljósinu. Alltsaman kostar þetta líka peninga og þeirra þarf að afla.

Björgunarfélag Akraness leggur mikla áherslu á að þekking og kunnátta björgunarmanna sé eins góð og frekast er kostur. Árlega eru haldin námskeið fyrir félagsmenn í þeim fræðum sem þeir þurfa helst að tileinka sér og er mikil áhersla lögð á að allir séu vel þjálfaðir í skyndihjálp. Nýliðar sem hyggjast starfa með félaginu þurfa að sitja fjölmörg námskeið s.s. í skyndihjálp, fjallamennsku og leitartækni. En það er ekki nóg að sitja námskeið, þetta þarf allt saman að æfa og viðhalda kunnáttunni. Þá má ekki heldur gleyma því að björgunarstörf byggjast á samvinnu. Þá samvinnu þarf að æfa.

Það er dýrt að halda úti björgunarsveit. Eins og aðrar björgunarsveitir á Íslandi er Björgunarfélag Akraness að mestu rekið fyrir sjálfsaflafé. Ýmis félög og stofnanir styrkja og hafa styrkt björgunarsveitirnar í gegnum árin og er þeim þakkaður sá stuðningur. Engu að síður þarf Björgunarfélagið að hafa allar klær úti til að afla fjár til rekstrarins.

Björgunarsveitirnar komas helst í fréttir þegar þær eru kallaðar út öðurm til aðstoðar. En starfi þeirra er hvergi lokið þegar útkalli lýkur. Þó að Björgunarfélag Akraness sé skipað sjálfboðaliðum getur hvert úkall kostað stórar fjárhæðir í beinhörðum peningum, stundum mörg hundruð þúsund. Eldsneyti á bíla og báta, öflun og viðhald búnaðar, allt kostar þetta sitt. Það er því stór þáttur –jafnvel stærsti þátturinn– í starfi félagsins að afla fjár til að geta brugðist við hjálparbeiðnum.

Björgunarfélag Akraness hefur ýmsar aðferðir til að afla fjár. Félagið hefur tekið að sér gæslu við ýmis tækifæri, s.s. á skólaböllum, útihátíðum, torfærukeppnum og hestamannamótum. Björgunarfélag Akraness hefur á að skipa fjölda reyndra björgunarsveitarmanna. Getur félagið tekið að sér hverskyns gæslur, bæði stórar og smáar. Jafnframt hefur félagið sent frá sér mannskap í stór verkefni utan Vesturlands, s.s. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, Kristnitökuhátíðina á Þingvöllum og fleira.

Fyrir jól og áramót hefur Björgunarfélag Akraness selt flugelda og jólatré. Hefur sú sala verið félaginu mikilvæg tekjulind. Er skorað á Akurnesinga og nærsveitamenn að styðja Björgunarfélagið með því að kaupa flugelda sína og jólatré hjá okkur. Jafnframt viljum við þakka almenningi fyrir veljvilja og stuðning á liðnum árum.