HSAK

Hjálparsveit Skáta, Akranesi
1983 – 2000

Árið 1983 var starfandi mjög öflugur dróttskátaflokkur í Skátafélagi Akraness. Þetta voru allt strákar sem voru “komnir á aldur” í venjulegu skátastarfi og vantaði eitthvað að gera. Þeir ákváðu í samráði við Ólaf Ásgeirsson þáverandi félagsforingja Skátafélagsins að leggja drög að stofnum hjálparsveitar. Þeir settu sig í samband við Landsamband Hjálparsveita Skáta og þar var kona að nafni Nína Hjaltadóttir sem tók við þeim og leiddi þá í gegnum ferlið. Þann 26. Nóvember 1983 var Hjálparsveit skáta Akranesi svo stofnuð.

Fyrsti formaður sveitarinnar var Heimir Janusson og átti ég stutt spjall við hann um árdaga sveitarinnar. Starf sveitarinnar var frá fyrsta degi mjög öflugt, strax voru fest kaup á Rússabifreið til að nota í starfi sveitarinnar. Þeir fengu bifreiðina alveg hráa, skáru úr fyrir gluggum, fengu gamla strætóstóla í hann og fóru þeir í tvö útköll á Rússanum gluggalausum. Landssamband Hjálparsveita Skáta gaf sveitinni í upphafi luktir, línu, loftspelkur, hitateppi og fleira tengt starfinu. Skátafélag Akraness leyfði þeim að vera með aðstöðu í litlu herbergi í skátaheimilinu og bílinn geymdu þeir fyrir utan. H.S.AK. átti í góðu samstarfi við Hjálparsveit skáta á Blöndósi og Hjálparsveit Skáta Hafnarfirði og fóru þessar sveitir í margar ferðir og á mörg námskeið saman. Og fóru m.a. nokkrir meðlimir sveitarinnar til Skotlands á námskeið í fjallamennsku

Eitt sinn er félagar H.S.AK. voru að koma heim af námskeiði um vetur stoppuðu þeir á gömlu Akranessvegamótunum til að hleypa einni stelpu út sem ætlaði í Borgarnes. Á vegamótunum voru tveir útlendingar vel klæddir í kuldanum með lambhúshettur, bíllinn þeirra startaði ekki og þurfti að ýta í gang, það lá ekki á hjálpsemini og voru strákarnir fljótir að kippa bifreiðinni í gang. Útlendingarnir þökkuðu fyrir sig og keyrðu burt. Daginn eftir voru nokkrir af þessum félugunum staddir upp í skátaheimili og heyrðu þeir þá þær fréttir að búið væri að sökkva hvalskipum í Reykjavíkurhöfn og mikil eyðilegging hafi átt sér stað í hvalstöðinni inn í Hvalfirði, fóru strákarnir þá að hugsa sig um og hringdu í lögregluna. Það kom svo í blöðum erlendis að Sea Shepard menn hafi þegið aðstoð lögreglunnar í Borgarfirði í ferð sinni hingað til Íslands til að mótmæla hvalveiðum, enda var rússinn fallega appelsínugulur með bláum blikkljósum.

Með árunum óx starf sveitarinnar og festi hún kaup á nýrri Econoline bifreið árið 1988. Þessi bifreið hentaði betur fyrir starfssemi sveitarinnar en samt var séð eftir Rússanum. Árið 1993 Eignaðist H.S.AK fyrsta húsnæði sitt að Ægisbraut 19. En það var kærkomið á 10 ára afmæli sveitarinnar. Í tilefni þess afhenti Skátafélag Akraness sveitinni rausnarlega gjöf eða eitt stykki vélsleða sem kom að góðum notum í starfi hennar. Síðla sumars 1995 fékk sveitin svo þriðju bifreið sína en það var Econoline bifreið árgerð 1992 sem Hjálparsveitin Tintron í Grímsnesi hafði átt. Gamli bíllinn var þá seldur og einnig vélsleðinn. Starf sveitarinnar var nú orðið öflugt og snerist mikið um fjáraflanir, ferðir og námskeið. Sveitin stækkaði nú ört og um áramótin 96-97 festi hún kaup á nýrri WV Carawellu til að eiga með Econolinernum.

Um áramótin 1998-1999 byrjaði sveitin að selja flugelda af miklum krafti og lyfti það sveitinni mikið upp. Svo Um haustið 1999 var sett á stofn sameiningarnefnd skipuð aðilum frá H.S.AK. og Björgunarsveitinni Hjálpin til að ræða hugsanlega sameiningu sveitanna. Úr því varð og var H.S.AK lögð niður á aðalfundi í mars árið 2000. Í staðin var stofnað nýtt félag byggt á traustum og gömlum grunni Björgunarsveitarinnar Hjálpin og öflugu starfi H.S.AK. Fimm menn gegndu formennsku í Hjálparsveitinni meðan hún starfaði:

  1. Heimir Janusson
  2. Óskar Helgi Guðjónsson
  3. Gunnar Gunnarsson
  4. Kjartan Kjartansson
  5. Jón Gunnar Ingibergsson