Hjálpin

Björgunarsveitin Hjálpin
1928-2000

Björgunarsveitin Hjálpin átti sér langa og merkilega sögu. Hún á rætur sínar að rekja til slysavarnardeildarinnar Hjálparinnar sem stofnuð var á Akranesi 14. desember 1928. Slysavarnardeildin Hjálpin var ein af allra fyrstu deildunum sem stofnaðar voru, en í lok fyrsta starfsárs Slysavarnarfélagsins voru þær fimm. Saga björgunarmála á Akranesi nær þó enn lengur aftur í tímann, enda var hér starfandi svokölluð bjargráðanefnd, en slíkar nefndir voru starfandi í flestum verstöðum.

Í upphafi miðaðist starfið einkum við að geta brugðist við sjóslysum og bjargað mönnum úr sjávarháska. Var allt kapp lagt á að útvega nauðsynlegan búnað til slíkra bjargana, fluglínutæki og brimróðrabát. Brimróðrabátur úr eigu sveitarinnar er nú einn af safngripum Byggðasafnsins á Akranesi. Með tímanum urðu leit og björgun á landi einnig snar þáttur í starfi sveitarinnar og kom hún sér upp búnaði og þekkingu til að geta sinnt slíkum hjálparbeiðnum. Í gegnum tíðina hafði sveitin ávallt þann metnað að vera vel tækjum búin. Var það á stundum erfitt, enda fjárhagurinn misgóður.

Um fjörtíu árum eftir stofnun Hjálparinnar eignaðist hún sitt fyrsta húsnæði að Sunnubraut 14. Hafði sveitin þar bækistöðvar sínar allt til ársins 1991 er hún keypti húsið að Akursbraut 13. Margt góðra manna og kvenna starfaði með sveitinni þessi liðlega sjötíu ár. Ber að þakka þeim fyrir gott og óeigingjarnt starf. Þá má ekki gleyma að þakka fjölskyldum þessa fólks, því án tillitssemi þeirra hefði þetta ekki verið hægt.

Margir menn hafa gegnt formennsku í sveitinni. Eiga þeir það allir sammerkt að hafa ætíð haft hagsmuni sveitarinnar og velferð almennings að leiðarljósi. Ekki er þó á neinn hallað þó minnst sé á fyrrverandi formann sveitarinnar, Þór Magnússon, deildarstjóra hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu. Með starfi sínu lagði hann grunninn að því að Björgunarsveitin Hjálpin varð alhliða björgunar- og hálparsveit. Hvílir björgunarstarf á Akranesi á þeim styrka grunni í dag.