31 Oct 2014
October 31, 2014

Nýr Björgunarbátur væntanlegur á Akranes

Nýr og öflugur björgunarbátur

Björgunarfélag Akraness hefur fest kaup á öflugum báti sem verður bylting í tækjakosti félagsins. Hann er væntanlegur til landsins 11. nóvember. Þá fer hann í slipp á Akranesi þar sem hann verður útbúinn tækjum og búnaði sem þarf til að gera hann að björgunarbáti.

17

Þörfin er brýn

Það hefur legið ljóst fyrir um nokkurt skeið að endurnýja þyrfti 21 árs gamlan harðbotna slöngubát félagsins, Margréti Guðbrandsdóttur. Á undanförnum árum hefur umferð skipa og báta um Faxaflóa aukist mikið með breyttum áherslum í ferðaþjónustu og strandveiðum. Þessi aukna umferð um flóann kallar á öðruvísi og öflugri útbúnað hjá viðbragðsaðilum.

Mikill metnaður er hjá Björgunarfélaginu til að sinna þessum breyttu aðstæðum og viðamikil þarfagreining hefur verið unnin innan félagsins. Þar hefur meðal annars verið stuðst við skýrslu starfshóps Landsbjargar um staðsetningu björgunarskipa frá árinu 2011. Ljóst er að á svæði Björgunarfélagsins er brýn þörf á öflugum björgunarbáti í verkefni sem opnir slöngubátar geta ekki sinnt eins vel. Til þessa hafa stærri björgunarskip átt hafnir á höfuðborgarsvæðinu og á Rifi á Snæfellsnesi. Ekkert slíkt hefur áður verið staðsett fyrir miðjum Faxaflóa.

010

Herinn gerir kröfur

Báturinn sem um ræðir er af gerðinni Halmatic 35. Hann er keyptur í Bretlandi og var smíðaður fyrir breska sjóherinn árið 1996. Upphaflega var hann ætlaður í fjölbreytt verkefni með áherslu á sjómælingar. Hann hefur verið mjög lítið notaður.  Aðeins er búið að keyra vélarnar í 800 tíma. Það myndi samsvara 33 sólarhringum í samfelldri keyrslu.

 

 

19

Ljóst er af öllum frágangi að fylgt hefur verið ýtrustu kröfum. Hér er um að ræða vandaða smíði með styrkan skrokk, enda er hann byggður til að geta siglt við verstu aðstæður allt norður í Íshafi.  Skrokkurinn er  10,5 metrar á lengd,  3,4 metrar á breidd og ristir 1,2 metra í sjó. Hann er að mestu yfirbyggður og með góðu plássi innanhúss fyrir áhöfn, sjúklinga og aðra farþega.  Um borð er eldunaraðstaða, salerni, bekkir og borð. Vélabúnaðurinn er tvær öflugar Perkins Sabre 215 hestafla innanborðsvélar og 12 Kw ljósavél. Ganghraðinn er í kringum 20-22 sjómílur á klukkustund og drægnin er 300 sjómílur.

 

Miklir möguleikar

Helstu verkefni sem bátnum er ætlað að leysa eru almenn leit og björgun úr sjávarháska auk leitar í höfnum og við fjörur.  Með þeirri tækni sem nútíminn býður upp á er hægt að auka notagildi báta við leit og björgun. Þar sem þessi bátur er yfirbyggður, með vandað rafkerfi og með góðu plássi býður hann upp á ýmsa möguleika. Ef fjármagn fæst þá er ætlunin að útbúa hann með fyrsta flokks tækjum til leitar og björgunar.008(1)

Með því að setja fjölgeislamæli um borð væri hægt að leita botn við fjörur og hafnir mjög nákvæmlega. Með innrauðri myndavél og hitamyndavél væri hægt að leita yfirborð sjávar í svarta myrkri,  auk þess sem hægt væri að veita aðstoð við leit á landi með því að skanna fjörur eða fjallshlíðar sem snúa að sjó.  Í bátnum verður fullkominn sjúkrabúnaður og aðstaða til að sinna slösuðum. Áætlað er að það verði brunadælur um borð sem nýtast við slökkvistörf og brunndælur til að dæla sjó úr sökkvandi fleyjum.

Mikil vinna eftir

Þótt skrokkurinn og vélar séu í topp ástandi er mikið af tækjabúnaði  úreltur eða að öðru leyti óhentugur.  Auk þess þarf að breyta innréttingum til að sníða bátinn að breyttu hlutverki hans sem björgunarbátur. Mikil vinna og kostnaður er því eftir þegar báturinn er heim kominn.004(1)

Ætlunin er að breyta bekkjum og færa til stóla til að koma fyrir sjúkrabörum og tengdum búnaði. Hvað siglinga- og fjarskiptatæki varðar þarf að rífa mikið út og endurnýja með búnaði sem stenst nútímakröfur sem gerðar eru til björgunartækja. Slökkvi- og dælubúnaður þarf líka að eignast sitt pláss. Mikið af þessu er ennþá á hönnunarstigi og því er ljóst að nokkur tími líður þar til báturinn er orðinn hæfur til útkalls.

Deila á Facebook