15 Feb 2014
February 15, 2014

Nýr björgunarbátur á Akranes

tundra

Toyota Tundra árg 2006

Það getur verið mikil áskorun að reka björgunarsveit. Almenningur og björgunarsveita meðlimir  gera kröfur um að björgunarsveitir geti tekist á við allar aðstæður sem komið geta upp. Björgunarsveitir bregðast við beiðnum um aðstoð og reyna að eiga búnað og mannskap til að aðstoða við öll verkefni sem snúa að leit og björgun.

Eitt af því sem gerir björgunarsveitum kleift að bregðast við aðstoðarbeiðnum er góður tækjakostur. Tækjakostur sem þolir verstu hugsanlegu aðstæður á sjó og landi. Rekstur og endurnýjun á tækjum og búnaði er stór kostnaðarliður sveitanna.

Tækjabúnaður Björgunarfélags Akraness nær yfir breitt svið og er vel í stakk búinn til að takast á við þau verkefni sem berast. Björgunarfélagið á tvo mikið breytta jeppa, einn fólksflutningabíl ásamt bryndreka. Einnig á félagið snjóbíl, harðbotna björgunarbátinn Margréti Guðbrandsdóttur og tvo minni slögubáta, Jón M. og Axel S.

 

batur

b/b Margrét Guðbrandsdóttir

Til að halda tækjakosti sem bestum er mikilvægt að endurnýja reglulega. Fyrir átta árum var síðasta tæki Björgunarfélags Akraness endurnýjað. Komið hefur fram að mikil þörf sé á öflugum björgunarbát í miðjum Faxaflóa þar sem mikil umferð hvalaskoðunarbáta, dagróðrabáta og flutningaskipa er á svæðinu. Síðastliðið haust fór af stað umræða um endurnýjun á harðbotna slöngubátnum Margréti Guðbrandsdóttur sem orðin er 26 ára og hefur sjóflokkur þegar lokið þarfagreiningu. Stjórn Björgunarfélags Akraness hefur skipað nefnd til að huga að fjármögnun og umsýslu við kaup á nýjum bát fyrir félagið. Nefndin hefur hafið störf og verið er að skoða báta, fá tilboð og leita að hentugum arftaka Margrétar út frá þarfagreiningu.

Deila á Facebook