26 Nov 2004
November 26, 2004

Ælupest og strigaskór á Eiríksjökli

Sagt er frá í gömlum sögum að Eiríkur einn hafi farið á handahlaupum upp á Eiríksjökul og er jökullinn kenndur við hann. Ekki var það ætlun okkar félaganna eð reyna þann leik heldur höfðum við bara hug á því að ganga á þetta hæsta fjall okkar vestlendinga.
Ég hafði rætt það í nokkrar vikur við félaga minn Sigurð Kára að skreppa austur í öræfasveitina og líka jafnvel á hnjúkinn og þar sem við erum báðir í vaktavinnu ákváðum við að finna okkur nokkra daga saman til að fara. Og miðvikudaginn 30 júní 2004 ræddum við saman og ákváðum við að fara, það var leiðinlegt veður fyrir austan þannig að við ákváðum bara að láta slag standa og skella okkur upp í Borgarfjörð og fara á Eiríksjökul.
Við hringdum í besta björgunarsveitarbílstjóra íslands og tók hann vel í að skutla okkur áleiðis. Á leiðinn stoppuðum við’ í Reykholti og keyptum okkur einnota grill, planið var að fá sér alvöru burger fyrir svefninn.
Besti björgunarsveitarbílstjóri Íslands taldi sig vita allt um þetta svæði og sóttist leiðin vel rankaði hann svo allt í einu við sér þar sem við vorum komnir eitthvað áleiðis inn á Arnarvatnsheiði, snerum við og beygðum upp hjá fjallinu Strútur, þetta var örugglega 500 ára gamall reiðslóði enda var hvorki Subway staður né Select. Festum 4 tonna econolinerinn í drullupitt en notuðum bara besta björgunarsveitarbílstjóra Íslands til að losa hann.
Ætlunin hafði verið að ganga á jökulinn við Eiríksgnípu en við sáum fljótt að við kæmumst mjög seint þangað eða jafnvel aldrei. Okkur var því hent út í miðju Hallmundarhrauni u.þ.b. 10 km frá jöklinum, við horfðum í áttina til hans og gátum ekki séð neina mögulega uppgönguleið,, bara hamrabelti svo lang sem augað…. Jú þarna gæti verið skemmtileg hryggjaleið sagði félagi minn ég sá hana og hugsaði með mér að þetta yrði örugglega skásti kosturnn. Með skíðin, klifurdótið, skíðaskónna og grillið á bakpokanum héldum við þungklifjaðir út í hraunið. Eftir skamma stund fundum við álitlegan náttstað og skelltum upp biwi tjöldum. Kveikt var upp í grillinu og skriðum við í pokana. Það var ekkert sem gat truflað fjallakyrrðina og nutum við þess að úða í okkur hamborgurum í kvöldsólinni. Svo seig svefninn yfir og við tóku örfáar hrotur frá félaga mínum.
Klukkan 0500 hringdi klukkan mín og hafði ég enga löngun til þess að fara á fætur vegna þess að það rigndi, en 30 mínútum síðar hafði stytt upp og var því ekkert að gera annað en að hafa sig á fætur. Ég byrjaði á að malla fyrir okkur þurrmat sem ég hafði nýlega verslað í útivistarbúð í RVK. Bragðið af honum var hryllingur, Siggi byrjaði strax á að æla sínum enn hélt samt ótrauður áfram að éta hann, ég hugsaði bara með mér þvílík þrjóska. Hann ældi og ældi en át samt alltaf meira minnti mig óneytanlega á ferð okkar til Himalaya fyrir nokkrum árum. Á endanum gafst hann upp og át tvær kexkökur setti undir sig strigaskóna og við gengum að stað. Við gengum með skíðaskóna í bakpokanum vegna þess hve langt það var að jöklinum og Siggi Kári hafði valið sér strigaskó til fararinnar þó að ég viti allvel að hann á fína gönguskó, ég sleppti því bara að spyrja enda príðis ferðafélagi.
Eftir nokkura km labb komum við að þessari hryggjaleið og klöngruðumst við upp hana án verulegra erfiðleika og vorum þá komnir upp á stóra sléttu sem umlykur jökulinn. Okkur reiknaðist að nú væri uþb 4-5 km labb að snjólínu og héldum við því okkar striki. Sigga var nokkuð óglatt eftir morgunmatinn er var að hressast. Þegar að snjólínu var komið smelltum við skíðunum undir og héldum á jökulinn sjálfan, veðrið var frábært sól og nánast heiðskýrt. Við lásum hæðina 1700 metrar á hæðarmælunum okkar í kringum 11 leitið og stóðum þá á hábunguni. Kortin okkar sögðu 1675 m þannig að toppurinn var okkar. Við tók skemmtilegasti hluti ferðarinnar, það að renna sér niður og renndum við okkur niður 4,5 km langa leið í fínu færi. Svo tók við gangan niðrí hraunið og stoppuðum við þar við læk og lögðum við okkur á árbakkanum í sólskininu. Við sváfum þar í klukkustund áður en við héldum niður á tjaldvæðið okkar til að taka niður tjöldin. Að því loknu gengum við áleiðis á móti bestabjörgunarsveitarbílstjóra Íslands sem sótti okkur við fjallið strút seinnipartin þann dag,, á heimleiðinni lásum við af gps tækjunum okkar að gönguleiðinn þann dag hafði slagað í 35 km þannig að það voru lúnir gaurar sem skiluðu sér eftir ferð á Eirík.

Gunnar Agnar Vilhjálmsson

Deila á Facebook