06 Aug 2014
August 6, 2014

Annasöm vika í ferðatíð

Björgunarsveitir hafa haft í nógu að snúast þessa dagana enda margir á faraldsfæti um landið. Auk þess að sinna hálendisgæslu á Sprengisandsleið hefur Björgunarfélag Akraness þurft að sinna all nokkrum útköllum síðustu vikuna.
Aðfararnótt þriðjudagsins 29. júlí vorum við beðin um aðstoð við leit við Hvaleyrarvatn. Leitað var að konu sem var saknað. Konan fannst skömmu síðar í Hafnarfirði.
Um kvöldmatarleytið næsta dag barst neyðarkall frá árabáti sem rak undan hvössum vindi í Kollafirði. Menn áttu í vandræðum með að stjórna bátnum. Þeir komust þó klakklaust í land af sjálfsdáðum áður en björgunarsveitir náðu til þeirra.
Laugardaginn 2. ágúst, um verslunarmannahelgina, var svo aftur beðið um aðstoð vegna víðtækrar leitar á höfuðborgasvæðinu. Í þetta sinn var það karlmaður á miðjum aldri sem var leitað. Hann komst sjálfur til byggða og gerði þar vart við sig.Á Hafnarfjalli ofan við gilið þar sem ungmennin lentu í sjálhfeldu.
Aðeins tveimur klukkustundum seinna barst beiðni um aðstoð í Hafnarfjalli. Tvö ungmenni af erlendu bergi brotin höfðu villst af gönguleiðinni og lent í sjálfheldu á syllu í snarbröttu gili. Ungmennin voru ekki staðkunnug og áttu því erfitt með að gefa upp nákvæma staðsetningu. Þar sem þau voru í góðu símasambandi var þó hægt að miða farsíma þeirra út með þokkalegri nákvæmni. Fjallabjörgunarmenn sigu til þeirra í línu og komu þeim til bjargar. Ástandið á ungmennunum var nokkuð gott, þrátt fyrir að hafa verið í talsverðri hættu á meðan þau biðu björgunar. Var þeim síðan fylgt niður fjallið.
Deila á Facebook