20 Jan 2014
January 20, 2014

Crean Challenge 2014

photo

Berglind, Linda og Jón

Eins og kom fram á Facebook síðu björgunarfélagsins þá á Unglingadeild Björgunarfélags Akranes 3 fulltrúa í Crean Challenge 2014. Fulltrúar okkar eru Berglind Björk, Linda Maria Rögnvaldsdóttir og Jón Hjörvar Valgarðsson. Þessir þrír jaxlar eru verðugir fulltrúar okkar í þessu verkefni. Krakkarnir ættla að leyfa okkur að fylgjast með og koma með myndir og ferðasögur eftir föngum. Hér er fyrsti hlutinn frá þeim, það eru tvær fystu ferðirnar. Fyrri ferðin var farin 22.-24. nóv og seinni ferðin var farin 10.-12. Jan. Hægt er að klikka á myndirnar og þá opnast albúm með fleiri myndum.  Gefum þeim orðið

“Við erum 3 úr Björgunarfélaginu í Crean Challenge. Sem er Vetraráskorun á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Bandalags Íslenskra skáta og Írskra Skáta. Til þess að komast í þennan 20 manna hóp þurfti að senda inn umsókn sem við skrifuðum sjálf og svo umsögn um okkur frá umsjónamönnunum okkar. Það voru 10 krakkar úr Björgunarfélögum á Íslandi valdnir í þessa áskorun og sömuleiðis 10 frá Skátunum.
Við höfum farið í tvær undirbúningsferðir og hafa þær bara verið helgarferðir. Í þeim höfum við verið að ganga á fjöll með stóra bakpoka og verið að æfa okkur fyrir vikuferðina sem er í febrúar.

Fyrri undirbúningshelgin.
Við mættum að Gljúfrasteini um kvöldið, hittumst og töluðum aðeins saman, völdum okkur göngu partner (varð að vera einhver sem við þekktum ekki). Svo lögðum við af stað gangandi í Þrist, sem er skáli við Esjurætur. Við þurftum að labba yfir mikið af lækjum og undir nokkrar girðingar. Svo loks komum við að skálanum, þá komu sér allir vel fyrir og fengum við kvöldkaffi, spjölluðum saman, höfðum gaman og sumir byrjuðu að skrifa í dagbækurnar sínar. Svo var komið að því að fara að sofa. Á laugardeginum vöknuðum við kl. 08:30 því það datt borð inni í skálanum. Svo þegar við vorum búin að fá okkur morgunmat fórum við aðeins að ræða um Kort og Rötun, borðuðum svo hádegismat sem var sú ágætasta gúllassúpa. Eftir hana klæddum við okkur í útifötin og gengum upp á Haukafell sem er þarna við hliðina á Þrist, á leiðinni niður fórum við í leiki. Borðuðum svo kvöldmat og þá eldaði hver hópur fyrir sig Hamborgara. Hóparnir gerðu svo kort yfir leiðina sem sá hópur ætlaði að labba heim daginn eftir. Við fórum í skrítinn morðingjaleik sem skátarnir nota, eftir han fóru allir að sofa. Á sunnudeginum vöknuðum við um kl. 09:00, allir pökkuðu strax, fengu sér morgunmat. Þegar allir voru komnir út fórum við í einn leik, auðvitað þurfti Guðný að detta um einn bakpokann og meiða sig í hnénu. Svo var lagt af stað heim, gangandi aðra leið. Þegar við komum aftur í Gljúfrastein töluðum við aðeins saman um helgina og fórum svo heim. Við sem búum á Akranesi skiptumst á að keyra og sækja í þessar ferðir. Þetta var mjög skemmtileg ferð!

Gengið á brattan

Seinni undirbúningshelgin.
Við mættum klukkan 7 á föstudagskvöldinu upp í jötunheima. þar var farið yfir plön helgarinnar og farið í nokkra leiki. Jón Gauti kom svo með fyrirlestur og myndir til að sína okkur og það var mjög fróðlegt og skemmtilegt, eftir fyrirlesturinn fórum við aftur að pæla í Kortum og Rötun. Við gistum fyrstu nóttina í jötunheimum. Á laugardagsmorguninn var svo Hilmar með annan fyrirlestur frá landsbjörgu. sem var líka mjög skemmtilegur og fróðlegur. eftir það fengum við pizzu og gerðum nestið okkar og bakpokana tilbúna fyrir gönguna. Okkur var keyrt upp að hellisheiðisvirkjun og þaðan löbbuðum við allt í allt um 10 km. Eftir ca 5 km göngu í snjó upp að hnjám stoppuðum við og fórum að tjalda og fá okkur kvöldmat. Um nóttina var mikið rok og -11 gráðu frost, Mjööög kalt. Eftir svefn-litla nótt var svo fengið sér morgunmat og öllu pakkað saman. Þá voru allir mjög spenntir að leggja af stað heim og þess vegna drifu sig allir að pakka samana og leggja af stað. Ferðin heim var muð erfiðari en sú fyrri. Bæði vegna þess hve veðrið var vont og það var komin örlítð meiri snjór. Við löbbuðum í kringum skarðsmýrarfjall sem voru þessir 10 km. Eftir langa göngu biðu svo björgunarsveitabílar eftir okkur og keyrðu okkur svo aftur upp í jötunheima.”

Deila á Facebook