26 Nov 2005
November 26, 2005

Flags of our Fathers

Björgunarsveitin Suðurnes fékk það frábæra verkefni seinnipart sumarsins 2005 að sjá um sjúkragæslu við tökur á myndinni Flags of our Fathers, sem töffarinn Clint Eastwood sá um að leikstýra. Björgunarfélag Akraness hefur alltaf átt gott samstarf við sveitina og fékk ég ásamt Eyþóri Guðmundssyni, sem er líka meðlimur í Björgunarfélagi Akraness, að vinna á „settinu“ (eins og það var kallað). Mér leið eins og krakka að bíða eftir jólunum þegar við fórum í fyrsta skiptið suður í Sandvík þar sem myndin var tekin. Og já, reyndar öll þau skipti sem ég fór. Mér fannst þetta alltaf mjög spennandi og skemmtilegt.
Dagarnir hjá okkur byrjuðu snemma. Lagt var í hann frá Akranesi um sex leytið. Þó að tökur á myndinni byrjuðu aldrei fyrr en um ellefu, þá byrjuðu strákarnir sem sáu um tæknibrellurnar að fikta við allar sprengjurnar, sem átti að nota yfir daginn, klukkan átta. Okkar var þörf ef eitthvað færi úrskeiðis þar. Mjög rólegt var á morgnana, en það var samt ekki hægt að láta sér leiðast. Hægt var að kíkja á „propsgeymslurnar“ þar sem allt sem notað var í myndinni var geymt, t.d. búningar, byssur, stóllinn hans Clints, talstöðvar og allt í anda seinni heimstyrjaldarinnar og prófa! Allt fólkið sem vann við tökurnar tók vel á móti og leyfði okkur að gramsa og skoða.
Það var alltaf tekið upp á tveimur stöðum í einu; annarsvegar þar sem Clint var og aðalleikararnir og hinsvegar þar sem tekið var upp með áhættuleikurum og þar var mikið um sprengjur og íkveikjur. Mér fannst auðvitað skemmtilegra að vera hjá honum Clint því þar voru allir aðalleikararnir og þeir voru alls ekki ómyndarlegir.
Einn daginn átti ég að vera ásamt Halla sem sá um sjúkragæsluna að vera hjá Clint en Eyþór hjá hinu tökuliðinu. Ég gaf Halla skýr skilaboð. Ef einhver af aðalleikurunum slasast þá átti ég að fá að sjá um þá. Halli andmælti því ekki. Svo kom á daginn að Bary Pepper (lék meðal annars í Green Mile og Saving Privat Ryan) fékk sprengjubrot í vörina. Halli, greinilega búinn að gleyma skilaboðunum, stökk til og fór að sinna honum. Ég fékk reyndar sárabót á eftir og fékk að sjá um að hreinsa sár hans kvölds og morgna næstu tvo daga. Ekki leiðinlegt.
Dagarnir voru mislangir, oftast var hætt að taka upp um átta leytið á kvöldin og við farin heim um níu.
Það sem kom mér mest á óvart í þessum starfi var hvað allt fólkið var almennilegt og kurteist. Ef mér býðst aftur svipað tækifæri, hika ég ekki við að þiggja það. Toppurinn var svo auðvitað að hitta og tala við goðið, sjálfan Clint Eastwood.

Belinda Eir Engilbertsdóttir

Deila á Facebook