26 Nov 2005
November 26, 2005

Hvannadalshnjúkur 2005

Skipulögð hafði verið ferð á Hvannadalshnjúk á vegum BA um hvítasunnuhelgina 2005, en færri komust með en vildu.
Lagt var af stað föstudaginn 13. maí frá Akranesi, vorum við tvö sem lögðum af stað af skaganum, ég (Maggi) og Silvía Llorens. En Gunni Agnar, Eva Garðabæjar skáti og Freydís eyjapæja ætluðu að hitta okkur í Esso á Höfðanum. Var ákveðið að taka nettan Subway með og bruna austur. Leiðin austur gekk vel, fyrir utan nokkur stopp svona hér og þar, samt aðallega þar. Var ákveðið að tjalda í Skálafelli, og nota laugardaginn til hvíldar og skemmtunar, en hópar bæði frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og Ferðafélagi Íslands ætluðu upp á hnjúkinn um nóttina. Tókum við því rólega þegar austur var komið og hituðum við nett swiss miss meðan tjöldunum var hent upp. Á laugardagsmorgninum vöknuðum við upp í svitakófi, en hitinn og sólin voru búin að gera það að verkum að sjóðandi hiti var inni í tjöldunum. Ákváðum við að taka rúntinn og skoða okkur um svæðið og renna inn að Hnappavöllum og kíkja í smá klettaklifur. Sáum við meðal annars hvernig hóparnir nálguðust Hnjúkinn, hægt en örugglega. Vorum við hálf vonsvikin yfir því að hafa ekki farið um nóttina líka en vorum samt sammála um að það hafi ekkert veit af því að hvíla sig. Þegar í Skaftafell var komið aftur, slógum við upp þessari glæsi grillveislu, þar sem Gunnar Agnar fór á kostum með grilltangirnar. Var hvorki minna en 4 réttuð máltíð. Eftir þessa dýrindismáltíð ákváðu sumir að hvíla sig eftir allt átið meðan sumir skelltu sér í göngutúr. Gengið var síðan frá og pakkað niður fyrir gönguna. En það átti að taka Alpastart.

Vaknað upp um miðja nótt. Mannskapurinn var ræstur út úr tjöldunum í kringum 3, og skildi lagt af stað fljótlega. Ekki leist okkur nú nægjanlega vel á veðrið á Hnjúknum, séð frá Skaftafelli. Þoka og smá úði, en ekki vorum við nú að láta það stoppa okkur og lögðum af stað, þegar við vorum komin í kringum 1000 m hæð, þá löbbuðum við upp úr þokunni. Og á móti okkur tók þetta frábæra Benidorm veður, glampandi sól og logn. Dyrhamarinn skartaði sýnu fegursta, en hætturnar gera ekki boð á undan sér. Í einu stoppinu var Silvía farin að vilja leggja af stað og var búin að taka 3-4 skref þegar hún pompar hálf ofan í sprungu og bjargar það henni að hún situr föst á bakpokanum. Hlupum við hin til og drógum hana upp, en þegar horft var ofan í sprunguna sást ekki til botns. Var þá ákveðið að ganga í línu, áleiðis það sem eftir væri upp að Hnjúknum. Gekk ferðin vel upp á topp, en þá höfðu liðið 7 klukkustundir síðan lagt hafði verið af stað. Ágætis pása var tekin á hæsta toppi Íslands eða í sirka 2111 m hæð, enda ófáar myndirnar teknar til minninga, og haldið síðan niður. En þegar seinustu aðilar voru komnir í bílinn voru liðnir 11 tímar síðan lagt hafði verið af stað. Skelltum við okkur í heita pottinn í Öræfasveitinni áður en brunað var heim. Var hópurinn sammála um að ferðin hafði gengið vel, en öll samt tilbúin að komast heim til að hvíla lúin bein.

Magnús Karl Gylfason

Deila á Facebook