Ágæti lesandi.

Það er orðinn árlegur viðburður í starfi Björgunarfélags Akraness að gefa út áramótablað. Í þessu blaði gefst okkur tækifæri til að kynna fyrir velunnurum okkar, hvað á daga okkar hefur drifið síðastliðið ár auk þess að nota tækifærið og kynna fyrir ykkur það sem í boði verður á okkar árlega flugeldamarkaði, einni af aðal fjáröflun Björgunarfélags Akraness.

Síðustu tólf mánuðir hafa verið annasamir. Bæði hefur árið verið viðburðaríkt félagslega og eins vegna þeirra starfa sem okkur eru falin sem björgunarsveit. Mikill áhugi er hjá félögum í starfi, við höfum tekið þátt í mörgum viðburðum á vegum samfélagsins sem við búum í og um leið haldið áfram þeirri markvissu uppbyggingu innan félagsins sem stefnt hefur verið að.
Út á við hefur þetta vakið athygli. Það líður varla sá dagur sem við erum ekki spurðir út í okkar starf, hvernig við förum eiginlega að þessu. Á tímum þegar sjálfboðaliðastarf virðist eiga undir högg að sækja og atvinnuástand svo gott sem raunin er. Í þessum sömu samræðum kemur einnig fram mikil virðing fyrir þessu starfi. Þeir eru ótrúlega margir sem hafa þurft á einhvern hátt á aðstoð björgunarsveitar að halda og þeir vita um hvað þetta snýst, en einnig eru þeir sem hafa með fræðslu áttað sig á mikilvægi þessarar starfssemi í þessu landi.

Á undanförnum misserum hefur víða verið rætt um mikilvægi þeirrar þjálfunar sem félagar björgunarsveitar fá. Það er nauðsynlegt í þessu fjallenda og veðurválynda landi okkar, að geta ferðast um það með öruggum hætti. Við höfum horft upp á það að fólk hefur lent í lífshættu undir Hafnarfjalli, suður á Kjalarnesi eða annarstaðar á þjóðvegi, í blindbyl, gaddfrosti og illa búið. Þetta svæði er þó í byggð. Við erum farin að treysta svo mikið á samgöngur, að slæm veðurspá stoppar okkur ekki, þó við höfum heyrt hana. Það er því mikilvægt að geta kennt fólki að fæða sig og klæða við verstu vetraraðstæður. Því fylgir öryggiskennd.

Ég hef nokkrum sinnum verið spurður út í það hvort við gætum ekki farið út í frekara unglingastarf. Hjá mörgum björgunarsveitum eru starfandi sérstakar unglingadeildir fyrir krakka í 9. og 10. bekk. Nokkuð hefur verið rætt um brottfall þessara krakka úr íþróttastarfi og að þau vanti spennandi viðfangsefni. Ævintýraþráin og forvitni er á háu stigi, og spurning hvert það leiðir þau. Þetta er full viðamikið verkefni eins og staðan er í dag, en orð eru til alls fyrst.

Starfssemi Björgunarfélagsins er flokkaskipt. Misjafnt er hve þetta starf er öflugt. Í byrjun árs 2005 var lögð áhersla á að ljúka við stofnun undanfaraflokks. Það eru margir sem spyrja sig að því hvað það nú sé og þeir sem meira vita, spyrja, hvort þörf sé á svona löguðu. Þegar mikið liggur við og boðað hratt út í erfið útköll, þá er nauðsynlegt að ákveðin vitneskja sé til um getu þeirra sem í útkallið fara. Undanfarar hafa mikla þekkingu og reynslu af björgunarstörfum og fjallamennsku. Þessi átta manna hópur gefur sig út fyrir að a.m.k. sex þeirra séu tilbúnir í erfitt fjallaútkall með tuttugu mínútna fyrirvara og geti haldið það út í sólarhring við verstu vetraraðstæður. Það er mikil ábyrgð að senda fólk út í þessar aðstæður. Við viljum vera viss um að þau skili sér heim. Það fylgir þessu því öryggi að vita fyrirfram, vegna reynslu við æfingar hvað þessi hópur getur. Þessi hópur stóðst úttekt Slysavarnafélagsins Landsbjargar í vor, sá fyrsti utan höfuðborgarsvæðisins.

Vel þjálfað fólk þarf að vera búið góðum tækjum. Það eru jafnan stærstu og erfiðustu verkefni björgunarsveita að eignast góðan búnað. Það fylgja því jafnan miklar pælingar hvað skuli keypt, hversu öflugt og hve mikið af græjum. Og jafnan erum við gagnrýnd fyrir „bruðlið“ en einnig hefur verið kvartað yfir græjuleysi. Vandrataður er sá millivegur. Í sumar tókst okkur að endurnýja bátinn okkar. Hann var keyptur notaður frá Bretlandi og fékk nafnið Margrét Guðbrandsdóttir. Þessi bátur reynist okkur í alla staði vel. Ekki hefur þó reynt enn á hann í útkalli.

Í haust keyptum við snjóbíl. Það er ekki svo að við tökum mikið mark á spám um að Golfstraumurinn sé að yfirgefa okkur, heldur tókum við að okkur verkefni inn á Grundartanga sem felst í því að grisja asparskóginn sem þar var gróðursettur fyrir ca. 15 árum. Landið þarna er mjög blautt og er þetta eina tækið sem kemst um með góðu móti. Hæfileikar þessa tækis í ófærð og erfiðu landi eru síðan viðbót við tækjaflóru okkar. Það má segja að aðeins vanti okkur sexhjól og vélsleða til þess að vera hæfir á öllum sviðum björgunarstarfa.

Það eru til Ólympíuleikar og það eru til Björgunarleikar. Ólíkir að stærð og mikilfengleika en engu að síður er barist hart á báðum stöðum um fyrsta sætið. Í vor var það stór stund fyrir félaga Björgunarfélagsins þegar úrslit Björgunarleika Slysavarnarfélagsins Landsbjargar voru tilkynnt. Við unnum. Þrautþjálfað sex manna lið sem malaði önnur, flest af höfuðborgarsvæðinu. Það skyldi engin láta sér detta það í hug að þetta sé eitthvað gutl sem þarna á sér stað, þarna þurfti áralanga reynslu, þjálfun, útsjónarsemi og mjög gott úthald.

Í haust buðum við til samkomu í húsnæði okkar að Kalmansvöllum 2. Tilefnið var margvígslegt. Fimm ára starfsafmæli, vígsla á húsinu okkar og nafngift á nýja bátnum. Gestir okkar sýndu okkur mikinn heiður og virðingu með nærveru sinni, heillaóskum og gjöfum. Það er hollt að staldra við og líta yfir farin veg, hvað hefur áunnist og hvar þarf að taka á. Gott er að setjast niður í góðra vina hópi og ræða málin.

Ágæti lesandi. Í ávarpi sem þessu er aðeins stiklað á stóru í okkar starfi. Ef þú vilt fræðast meira um okkur þá eigum við góða heimasíðu, www.bjorgunarfelag.is. Þar er fyrst og fremst safn mynda úr starfi, en einnig ýmiss fróðleikur. Þessi skrif mín vil ég enda á því að þakka þér og öllum hinum sem lagt hafa þessari starfssemi lið. Í smáu sem stóru. Það eru ekki bara þeir algölluðu með græjurnar sem vinna kraftaverkin. Það eru líka allir hinir sem að baki þeim eru.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.

Ásgeir Kristinsson

Deila á Facebook